136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:06]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu var leitað til Sjálfstæðisflokks og honum kynntar þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram en flokkurinn vildi ekki taka þátt í að leggja þetta mál fram.

Ég vil líka einnig leyfa mér að mótmæla því að leikurinn sé hafinn. Leikurinn er í þeim skilningi ekki þannig hafinn að ekki megi gera einhverjar breytingar. Staðreyndin er sú að sú hugmynd sem hér liggur fyrir gerir ráð fyrir því að „sá leikur“ sem sumir flokkar eru þá væntanlega farnir að leika getur nýst þeim við uppröðun á lista. Hér er verið að bjóða upp á valkosti, þ.e. annars vegar að vera með raðaðan lista og hins vegar óraðaðan lista. Þeir sem velja að vera með óraðaðan lista geta haldið þeirri línu (GHH: Hvað með … þingmannanna?) að vera með óraðaðan lista. Það er á engan hátt verið að grípa inn í undirbúning flokkanna, þeirra sem vilja fara þessa leið.

Ef aðrir vilja hins vegar fara aðra leið er boðið upp á þann valkost þannig að ég vísa því algjörlega á bug, virðulegi forseti, að hér sé á einhvern hátt verið að gera breytingar sem flokkarnir ráða ekki við. Þeir verða bara að vega það og meta sjálfir hvort þeir treysti sér til þess að gera þessar breytingar og það er um það sem málið snýst. (ÞKG: Hvað með …?)