136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:12]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gerist stundum í þinginu að menn snúa út úr því sem sagt er bara af því að það hentar. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega sú orðræða sem hér fer fram. (Gripið fram í.) Ég sagði, virðulegi forseti, áðan að þeir flokkar (Gripið fram í: … tala.) sem velja að fara þá leið að halda öllu óbreyttu geta lagt fram raðaða lista og þurfa ekki að breyta neinu. Þeir sem hins vegar vilja leggja fram óraðaða lista og gefa kjósendum kost á að gera breytingar geta einnig gert það.

Þá kemur hið flókna og snúna, eins og hv. þm. Ólöf Nordal nefndi, þá þurfa kjósendur sem sagt að raða upp: 1, 2, 3, 4, 5 o.s.frv. — alveg eins og er gert í prófkjörum. Það verður að segjast eins og er að kjósendur á Íslandi hafa bara nokkuð góða reynslu í því að taka þátt í prófkjörum og ég er sannfærður um, þó að greina hafi mátt efasemdir í ræðu hv. þingmanns um að almenningur geti tekið þátt í þessu, að almenningur fer létt með það. Hann fer létt með að fylla út óraðaðan lista þannig að hann númeri þá sem eru númer 1, síðan númer 2 og áfram niður. Það er ekki vandamál.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, var spurt hér um kröfuna um tvo þriðju hluta, væntanlega atkvæða á þingi ef ég skildi hv. þingmann rétt. Sú breyting sem hér er verið að gera er sú að gefa kjósendum tækifæri á að breyta lista. Í dag geta kjósendur breytt lista samkvæmt 82. gr. kosningalaganna þannig að það er í sjálfu sér engin eðlisbreyting á því hvort hann færir einn þingmann niður frá röðuðum lista eða raði sjálfur upp á lista. Það eru gerðar breytingar í dag. Það má nefna tvö dæmi úr síðustu kosningum þar sem listum var breytt og hér er talað um að gefa kjósendum kost á að breyta lista. Ég spyr: Hver er eðlismunurinn á því (Forseti hringir.) að breyta lista og breyta lista? (Gripið fram í.)