136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:15]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þingmaður nálgast þetta mjög mikið út frá forsendum flokkanna. Ég er að spyrja hann hvort hann telji ekki betra að hafa þetta þannig að það sé þægilegt fyrir kjósendur að kjósa í staðinn fyrir að rugla þá með því að hafa óraðaða og raðaða lista eftir hentugleikum.

Ég spurði hann um Suðurkjördæmi og hvort hann hefði ekkert áhyggjur af því sem fulltrúi slíks kjördæmis, víðfeðms kjördæmis, að þetta gæti haft áhrif á áherslur innan kjördæmisins. Við vitum að það er oft þannig í prófkjörum að þéttbýlli svæðin eru sterkari en hin. Mig langar bara að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverjar áhyggjur af þessu.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hann hvort það hafi komið til greina í hans kjördæmi að vera bæði með raðaðan og óraðaðan lista af hálfu Samfylkingarinnar, hvort menn ætli að leggja upp með slíka hluti handa kjósendum.

Ég verð að segja að það kemur mér mjög á óvart ef hv. þingmaður ætlar að telja mér trú um að þetta frumvarp muni ekki kalla á tvo þriðju atkvæða á þinginu þegar það verður tekið til afgreiðslu eins og 31. gr. stjórnarskrárinnar (Forseti hringir.) kveður klárlega á um.