136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:17]
Horfa

Sturla Böðvarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að ég fékk á tilfinninguna við það að hlusta á framsögumann þessa frumvarps að hann hefði ekki mikla sannfæringu fyrir málinu. Það birtist alveg sérstaklega skýrt þegar hann gerir grein fyrir því að það kunni að vera nauðsynlegt að stilla upp fleiri kostum en hér er gert ráð fyrir í persónuvali í frumvarpinu og að nefndin eigi að skoða hvort önnur leið kunni að vera færari og betri en sú sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Það vekur spurningar hjá mér um það hvort þessi leiðangur sem hér er lagt upp í sé ekki sannfærandi að mati 1. flutningsmanns málsins.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann í fyrsta lagi eðlilegt þegar verið er að flytja svo mikilvægt mál inn í þingið að það sé ekki fullbúnara en svo að nefndin eigi e.t.v. að taka það upp í grundvallaratriðum?

Í annan stað: Telur hv. þingmaður eðlilegt að það eigi að geta gilt mismunandi reglur í kosningum á milli flokka innan sama kjördæmis? Telur 1. flutningsmaður það líklegt til að auðvelda og skýra fyrir kjósendum þessa mikilvægu athöfn sem kosningar til Alþingis eru þegar verið er að velja á milli manna og velja á milli lista? Ég tel afar mikilvægt að um þetta atriði fari fram umræða í þinginu.