136. löggjafarþing — 92. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[13:23]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðreyndin er sú að kosningar verða í vor. Ef það á að gera þessar breytingar fyrir kosningar þarf að gera þær núna, ef það á að gefa almenningi færi á að velja fulltrúa sína á annan hátt inn á þing verður að gera það núna. Þetta er þess eðlis að það er ekkert annað tækifæri. (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður segir að verið sé að efna til ófriðar. Af hverju segir hv. þingmaður að það sé verið að efna til ófriðar þegar staðreyndin er sú að fjórir flokkar af fimm eru tilbúnir að leggja þetta fram og fara þessa leið? Þá hlýt ég að spyrja: Hver er að efna til ófriðar? (Gripið fram í: Þú.) Hver er að efna til ófriðar þegar fjórir flokkar af fimm eru tilbúnir að fara þessa leið? Er Sjálfstæðisflokkurinn að efna til ófriðar um það að gefa almenningi aukna möguleika, aukið vægi í að velja alþingismenn inn á hið háa Alþingi? Er það það sem við erum að tala um? (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera þá kröfu að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) færi betri rök að máli sínu en hér hafa komið fram.