136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:02]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Nú eru merkilegir tímar í stjórnmálunum og ýmislegt nær meira brautargengi en áður var og hefur verið um margra ára skeið. Því er eðlilegt að taka upp á þessum tímamótum deilumál sem hefur verið eins og fleinn í holdi þjóðarinnar um 20 ára skeið, íslenska fiskveiðistjórnarkerfið. Samkvæmt könnunum og mælingum á afstöðu þjóðarinnar til þess hefur andstaðan verið mjög mikil og mjög stöðug. Samkvæmt síðustu könnun Gallups voru aðeins um 15% þjóðarinnar ánægð með kerfið en 72% óánægð. Aðeins 15% vildu óbreytt kerfi en 60% vildu breyta því og 25% vildu leggja það niður. Hlutföllin eru í báðum tilvikum að fyrir hvern einn sem var ánægður með kerfið voru a.m.k. fimm óánægðir. Skipt niður á flokka hefur afstaða stuðningsmanna einstakra flokka verið þannig að allt frá 76% stuðningsmanna stjórnmálaflokks vildu breyta kerfinu eða leggja það niður og upp í 94%.

Nýverið kom ný könnun sem hnykkti á þessari óánægju þjóðarinnar með kerfið þar sem menn svöruðu tiltekinni spurningu og gáfu upp afstöðu til tiltekinna breytinga, ekki bara almennt afstöðu til þess að vilja breyta. Þar var spurt hvort menn væru hlynntir eða andvígir því að stjórnvöld afturkölluðu með einum eða öðrum hætti gildandi fiskveiðiheimildir og úthlutuðu þeim að nýju með breyttum reglum. Niðurstaðan af könnun sem MMR gerði og birti í síðasta mánuði var að 61% þjóðarinnar svaraði þessu játandi. Það er yfirgnæfandi meiri hluti sem svara því játandi að vilja tilteknar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu.

Meiri hluti stuðningsmanna þriggja stjórnmálaflokka af fjórum sem mældir voru lýsti yfir miklum stuðningi við þessa tilteknu breytingu. 55% stuðningsmanna Framsóknarflokksins svöruðu þessu játandi en aðeins 30% neitandi. 69% stuðningsmanna Samfylkingarinnar svöruðu spurningunni játandi en aðeins 8% neitandi. 77% stuðningsmanna Vinstri grænna svöruðu spurningunni játandi en aðeins 12% neitandi. Afstaða þjóðarinnar til þessa mikla deilumáls liggur því fyrir, það er mikil, víðtæk og langvarandi óánægja sem hefur verið stöðug allar götur frá 1998.

Það er mikill vilji til að breyta kerfinu eða jafnvel leggja það niður og það er staðfest í þessari nýjustu könnun að mjög mikill vilji og stuðningur er við tiltekna kerfisbreytingu sem er í raun og veru sú að gefa upp á nýtt.

Ég hygg að segja megi og fullyrða þó að það komi ekki fram í þessum könnunum að það hljóti að vera afstaða velflestra sem taka þátt í henni að breytingar sem verði gerðar verði gerðar með þeim hætti að þær raski ekki forsendum þeirra sem fjárfest hafa í kerfinu, heldur geri þeim kleift að glíma við og ráða við sínar skuldbindingar og vinna úr þeim eins og til stóð. Ég hygg að það megi fullyrða að viljinn til þess að breytingin taki skynsamlega langan tíma sé ríkur. Málið snýst ekki um það og menn geta ekki hafnað breytingum með skírskotun til þess. Spurningin er þessi — hún er pólitísk og það er eðlilegt að stjórnmálaflokkarnir svari henni í aðdraganda þingkosninga, sérstaklega í máli sem hefur verið eitt stærsta deilumál í íslensku þjóðfélagi í 20 ár: Vilja stjórnmálaflokkarnir svara viðhorfum kjósenda sinna? Vilja stjórmálaflokkarnir mæta viðhorfum þjóðarinnar til þessa máls og lýsa því yfir að þeir ætli að breyta kerfinu, ráðast í breytingar sem gera þjóðina sáttari við það en það sem hefur verið í gildi á undanförnum 20 árum? Það er spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra: Er hann tilbúinn til þess og er pólitískur vilji innan hans flokks til að svara kröfum kjósenda hans? Ég vænti þess að talsmenn annarra flokka svari því fyrir sitt leyti hvort pólitískur vilji er fyrir hendi innan þeirra flokka að mæta sjónarmiðum stuðningsmanna flokka sinna.