136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:15]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Herra forseti. Það eru erfiðir tímar og það er dálítið dapurlegt til þess að hugsa að þjóðin hefur búið við fiskveiðistjórnarkerfi sem byggist á framsali og leigu og sölu kvóta. Það hafa mjög margir talað um það, sérstaklega þeir sem snúa að útgerðinni og sjálfstæðismenn eins og hv. þingmaður hér áðan, að þetta væri svo gott kerfi og öruggt og væri svo fínt fyrir sjávarútveginn og ágætt að það mátti nú alveg búast við því að þegar kæmu svona hremmingar yfir landið eins og nú háttar til að þá hefðum við getað horft til sjávarútvegsins til að koma til bjargar þjóðinni.

En hver er niðurstaðan af þessu kerfi? Það er allt í kalda koli þar líka og bara sú staða krefst þess að við breytum þessu kerfi sem fyrst, bara sú staða sem við erum í í samfélaginu og líka það atvinnuleysi sem hér hefur verið. Þegar var verið að úthluta þessum 30.000 tonnum um daginn þá var þeim deilt út meira og minna á gjaldþrota fyrirtæki jafnvel inn í þrotabú sem bankarnir eiga að véla um. Ég bara skil þetta ekki.

Svo náttúrlega er annað, þ.e. að á okkur, íslensku ríkisstjórninni, hvílir krafa frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um að breyta þessu kerfi. Í allri umræðu um orsök kreppunnar sem er rakin til kvótabrasksins þá er það ekki bara þjóðin sem gerir kröfur um breytingar, öll þjóðin, stór hluti þjóðarinnar skulum við segja. Þetta er ekki bara einhver lítil skoðanakönnun hagsmunahópa eða einhverjar litlar grúppur úti í bæ sem verið var að spyrja. Nei, það er krafa um það frá þjóðinni að breyta þessu og þeir sem taka við völdum hér eftir kosningar hljóta að taka mið af þessari kröfu þjóðarinnar um breytingu. Ég er á þeirri skoðun að við hefðum hæglega getað stóraukið atvinnu fjölda manna með því að gefa (Forseti hringir.) þeim tækifæri til þess að veiða fisk á handfæri.