136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:19]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjandanum Kristni H. Gunnarssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er mjög þarft að ræða þetta. Við þurfum ekkert að ræða óréttlætið sem hefur fylgt þessu fiskveiðistjórnarkerfi. Við þurfum heldur ekki að fjalla um árangursleysið í uppbyggingu fiskstofna. Við þurfum ekki að tala um brottkastið. Við þurfum ekki að tala um hörmungarnar sem þetta kerfi hefur leitt yfir sjávarbyggðir landsins og nú síðast eftir að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sendi sitt álit fyrir rúmu ári síðan þá er að minnsta kosti mér og sem betur fer meiri hluta þjóðarinnar orðið alveg ljóst að það þarf að breyta.

Það er dálítið sorglegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki treysta sér til að segja hvaða leiðir Vinstri grænir ætla að fara í þessum málum inn í framtíðina því eflaust hafa þeir nú velt þessu fyrir sér í mörg ár eins og margir aðrir. Meðal annars hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra skrifað bækur um fiskveiðistjórn og kvótakerfi á Íslandi. En í nýju Íslandi sem við ætlum að byggja upp núna úr þeim rústum sem við stöndum frammi fyrir er ljóst að við þurfum að byrja á að fara út úr þessu kerfi og við getum gert það með ýmsum hætti.

Við í Frjálslynda flokknum höfum boðað að innkalla allar veiðiheimildir. Við höfum líka boðað það að byrja að fara einhver hænufet með frjálsum handfæraveiðum og höfum lagt það til. Við höfum náttúrlega lagt það til að staðið verði við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og að þessir menn sem fóru alla leið fái bætur. Það þarf ekkert að ræða um þetta. Þess vegna finnst manni það súrt að sósíalistar eða þeir sem kenna sig við sósíalíska hugsun eins og Vinstri grænir gera nú skuli ekki sjá sóma sinn í því að leiðrétta mannréttindabrotin sem hafa átt sér stað og tekið undir það að innleiða hér frjálsar handfæraveiðar, að ekki sé nú talað um það að innkalla allar veiðiheimildir. (Forseti hringir.) Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess nú hjá þessari ríkisstjórn.