136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:21]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. VG hefur lengi mælt fyrir heildarendurskoðun fiskveiðistjórnarkerfisins og fiskveiða með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ég verð að minna á að það hafa átt sér stað stórfelld viðskipti með aflaheimildir sérstaklega eftir einkavæðingu bankanna og verðmæti þeirra hækkaði langt umfram raunverulegt verðmæti. Þessi lán hafa síðan verið nýtt ýmist til kaupa á aflaheimildum eða allt annarra hlutabréfakaupa.

Það liggur líka fyrir að þessi viðskipti með aflaheimildir og yfirveðsetning þeirra jafnvel til banka erlendis hafa leitt til stórfelldra fjármagnsflutninga frá Íslandi og átt ríkan þátt í bankahruninu og efnahagshruninu. Afar umdeildir gjaldeyrisskiptasamningar auka enn á skuldsetningarvanda sjávarútvegsfyrirtækja.

Í ljósi alvarlegrar skuldsetningar íslensks sjávarútvegs blasir við að aflaheimildir kunna í töluverðum mæli að ganga til baka til ríkisins, vörslumanns auðlinda þjóðarinnar og eiganda ríkisbankanna sem hafa yfirtekið þessar skuldir. Við þá endurúthlutun sem kann að eiga sér stað er afar brýnt að skapa öryggi og festu í þeim sjávarbyggðum sem þessar heimildir eru nú bundnar við. Það er afar brýnt. Ég minni á að atvinnuleysi er langminnst á landinu þar sem er rekin traust og öflug útgerð og vinnsla sjávarafurða. Tökum sem dæmi Grindavík, Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði.

Þessar auðlindir sem þannig kunna að koma til endurúthlutunar verða að mynda byggðatengdar og óframseljanlegar heimildir. Það verður að huga vandlega að þeirri gjörbreyttu stöðu sem komin er upp í kjölfar efnahagshrunsins. Það er brýnasta verkefni stjórnvalda í dag. Það verður að taka yfirvegaðar og faglegar ákvarðanir í nánu samráði við hagsmunaaðila. Við búum við efnahagshrun. (Forseti hringir.) Við megum ekki missa sjávarútveginn frá okkur (Forseti hringir.) og þá tekjulind sem hann er þjóðinni.