136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:26]
Horfa

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu nú eins og oft áður full ástæða til að ræða málefni sjávarútvegsins. Það er hins vegar algerlega nauðsynlegt að sú umræða taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í landinu.

Ég vil þess vegna taka undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það var mjög ánægjuleg og ábyrg ræða sem hæstv. ráðherra hélt hér áðan. Það er augljóst mál nú á þessum tímum þegar stutt er til kosninga að ýmsir sem þurfa að vekja athygli bæði á málum og mönnum nýti tækifærið nú og nálgist ýmis umræðuefni með þeim hætti að hugsanlega verði sérstaklega eftir því tekið.

Ég held hins vegar að umræðan um sjávarútvegsmál þurfi að taka fyrst og fremst mið af heildarhagsmunum þjóðarinnar. Það er algerlega ljóst að sú staða sem nú er uppi í sjávarútvegi kallar á það að menn nálgist þessa umræðu hugsanlega á annan hátt en áður hefur verið. Ég held að sú nálgun geti ekki verið upphrópanir eða niðurrif alls kerfisins sem verið hefur.

Við eigum hins vegar að nálgast það þannig að það kerfi sem nú er er að sjálfsögðu ekki fullkomið. Það hefur að sjálfsögðu galla. Við sjáum það til dæmis að eitt af meginmarkmiðum kerfisins sem var að auka inn til framtíðarinnar aflann hefur ekki gengið eftir eins og að var stefnt. Hugsanlega er þar um að kenna því við höfum ekki látið nægjanlegt fjármagn renna til rannsókna eða það hefur ekki verið hlustað nægilega vel á sérfræðinga. Yfir þetta þarf allt saman að fara.

Það þarf að fara yfir sjávarútveginn eins og aðrar atvinnugreinar og eins og komið hefur hér fram í máli ýmissa hv. þingmanna þá liggur alveg ljóst fyrir að skuldastaða sjávarútvegsins er slík að það hlýtur að þurfa að fara yfir það hvernig menn ætla að nálgast breytingu á því, hvort það verði gert með því að taka inn (Forseti hringir.) aflaheimildir og fella niður skuldir á móti eða að aðrar leiðir verði farnar. Fyrst og fremst er (Forseti hringir.) ástæða til að hvetja til þess að menn tali í þessari umræðu án upphrópana.