136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:30]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Mörgum verður um og ó þegar farið er að tala um að nú eigi að breyta til í sjávarútvegi og endurskoða kerfið sem hefur verið við lýði. Menn tala um að litlu megi raska og engu breyta og allir þurfi að búa við núverandi öryggi.

Hvert er núverandi öryggi? Er það ekki úthlutun aflaheimilda til útgerða sem fá úthlutað á hverju ári ákveðnum hlut? Hvað hefur það fært okkur? Hvað hefur þetta öryggi fært okkur á undanförnum árum? Skuldsetningu sjávarútvegs upp á sennilega um 500 til 600 milljarða kr. að núvirði. Í nýlegu svari hér á Alþingi kom fram að í ríkisbönkunum liggja 430 milljarðar í skuldum. Þá er eftir að taka tillit til þess sem liggur í Byggðastofnun, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum.

Það er alveg rétt að sjávarútvegurinn hefur komið sér í mjög afleita stöðu, en hann hefur gert það sjálfur. Útgerðarmenn hafa leigt, veðsett og selt kvótann og skuldsett hann. Þeir hafa tekið peninga út úr sjávarútveginum og farið með þá eitthvert annað. Þeir hafa búið til þá skuldastöðu sem við búum við. Þeir bjuggu til leiguliðakerfið þar sem aðrir borga þeim sérstaklega fyrir að fá að nýta fiskveiðiheimildir þjóðarinnar.

Að halda því fram að ekki sé tími nú frekar en oft áður þegar sjálfstæðismenn tala fyrir óbreyttu kerfi — það má aldrei endurskoða neitt í sjávarútveginum. Það á alltaf að festa hann í einkaeignarrétt þeirra sem hafa farið með þessar heimildir, safnað skuldum og hlaðið þeim upp fyrir framan þjóðina, sem nú horfir á sjávarútveginn þannig settan að hann er í miklum erfiðleikum. Það er algjörlega rétt en það breytir ekki því að taka verður á þessu kerfi og gerbreyta því (Forseti hringir.) frá því sem nú er.