136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

endurúthlutun aflaheimilda.

[14:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og ekki hefði ég á móti því að við hefðum hér rýmri tíma og gætum rætt málin ítarlega og flokkar gætu gert grein fyrir stefnu sinni í einstökum atriðum, en þá þarf að skapa annað rými fyrir þá umræðu en hálftíma hér í símskeytastíl.

Ég vil segja við hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, frú forseti, með leyfi, að ég kannast ekki við annað en að hafa talað af ábyrgð um málefni sjávarútvegsins og reyndar almennt um málefni hér. Ég glímdi mikið við sjávarútvegsmál, sat lengi í sjávarútvegsnefnd á síðasta áratug og var formaður hennar um skeið og skrifaði bók um sjávarútvegsmál, eins og einhver nefndi reyndar, (Gripið fram í.) og hef lengi velt þessum málum mikið fyrir mér.

Ég veit ekki betur en að ég hafi ætíð reynt að nálgast viðfangsefnið af þeirri ábyrgð sem er sjálfsögð þar sem í hlut á einn helsti undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Það þarf ekki að þýða að menn séu ekki opnir fyrir því að gera breytingar og reyna að ná meiri sátt um þessi mál, sem kannski er ekki alveg rétta nálgunin, heldur að reyna að ná fram breytingum sem ná betur þeim markmiðum sem við væntanlega ætlum okkur með sjávarútvegsstefnunni og rekstri þessarar atvinnugreinar í landinu, þ.e. að við göngum vel um auðlindina og nýtum hana með sjálfbærum hætti og afraksturinn dreifist með sanngjörnum hætti til landsmanna allra, byggðarlögin búi við fullnægjandi öryggi og starfsöryggi sjómanna og fiskverkafólks sé til staðar o.s.frv. Sumum þessara markmiða geta menn sagt að sé að hluta til náð í núverandi kerfi en öðrum alls ekki, eins og við þekkjum. Þetta er ágallinn eins og hann kemur mér fyrir sjónir.

Hvað sem líður afstöðu flokka til fiskveiðistjórnarkerfisins og spurningarinnar um endurráðstöfun afnotaréttarins vil ég heldur ekki að menn gleymi að möguleikar eru til viðbótarbreytinga, eins og hér hafa stundum verið ræddir, um einhvers konar þróun í átt að vistvænum veiðum og eflingu strandveiða og mæta þá í leiðinni t.d. sjónarmiðum mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og reyna að stuðla að endurnýjun, nýliðun og uppeldi sjómanna í stéttinni og fleiru (Forseti hringir.) sem núverandi kerfi verkar að mörgu leyti eins og þröskuldur gagnvart. Breytingar í sjávarútvegsmálum geta tengst svo mörgu fleiru en bara grundvallarfyrirkomulagi (Forseti hringir.) fiskveiðistjórnarkerfisins.