136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing.

295. mál
[14:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í verkefnaskrá Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er kveðið á um að gerðar skuli breytingar á stjórnarskránni og í samræmi við það skipaði ég ráðgjafahóp ríkisstjórnarinnar um tillögur um breytingar á stjórnarskránni og hefur hópurinn unnið frumvarp til stjórnskipunarlaga og einnig drög að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing. Frumvarpið hefur verið tekið til umfjöllunar meðal forustumanna stjórnmálaflokkanna og í þingflokkum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og hefur þetta verið að gerast á undanförnum dögum og vikum.

Samkvæmt erindisbréfi ráðgjafahópsins skyldi byggt á verkefnaskrá ríkisstjórnar sem mælir fyrir um að nú skuli bætast inn ákvæði um auðlindir í þjóðareign, þjóðaratkvæðagreiðslur og aðferð við að breyta stjórnarskrá, auk þess sem hefja skyldi undirbúning lagasetningar að stjórnlagaþingi. Þá kom fram í erindisbréfinu að hópurinn skyldi meta í ljósi starfs stjórnarskrárnefndar á árunum 2005–2007 og þess víðtæka samráðs sem þá átti sér stað hvort rétt væri að gera tillögur um fleiri breytingar á stjórnarskrá, einkum varðandi umhverfisvernd, og hefur hópurinn miðað við þetta í störfum sínum.

Eins og ég sagði hefur málið verið kynnt öllum stjórnmálaflokkum sem eiga sæti á Alþingi og forustumönnum stjórnmálaflokka. Það má minna á það hér, hæstv. forseti, að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gerði ekkert með tillögur stjórnarskrárnefndar vorið 2007 þó að nefndin, þar sem allir flokkar áttu sæti, hafi staðið einhuga að þeim, þannig að jafnvel breið samstaða dugði þá ekki til. Auk þess sýndi nefndarstarfið þá, líkt og ýmsar fyrri tilraunir til gagngerrar endurskoðunar stjórnarskrárinnar, hversu erfitt getur verið að ná saman um breytingar ef allir flokkar eiga að hafa neitunarvald. Krafa almennings um stjórnlagaþing byggist m.a. á því að flokkarnir hafa ekki náð samstöðu um mikilvægar breytingar á stjórnskipan, eins og um rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu og sameign þjóðarinnar á auðlindum, þótt það hafi verið reynt árum saman.

Varðandi það hvort skammur tími sé til stefnu vil ég minna á að fyrir liggur heilmikil vinna sem ráðgjafahópurinn nú byggir m.a. á. Þær tillögur sem nú eru ræddar byggjast m.a. á starfi stjórnarskrárnefndar 2005 og 2007 og því víðtæka samráði sem þá átti sér stað. Til viðbótar telur ríkisstjórnin rétt að gera breytingar á stjórnarskránni sem varða stjórnlagaþing. Þá fái stjórnlagaþing stoð í ákvæði um stundarsakir og því verði fengið stjórnskipulegt hlutverk sem er annað og meira en að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og með því yrði brugðist við mjög útbreiddri kröfu almennings um lýðræðislega endurnýjun stjórnskipunarinnar í kjölfar þess hruns sem við stöndum frammi fyrir.

Í ljósi þess að verkefni hópsins er að vinna hratt upp tillögur byggðar á starfi stjórnarskrárnefndar þóttu ekki efni til að hafa samráð við alla flokka um samsetningu ráðgjafahóps undir forustu Bjargar Thorarensen prófessors. Þess í stað mun forsætisráðherra að fengnum fyrstu tillögum kynna eins og kostur er fyrir þingflokkum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi hugmyndir ráðgjafahópsins, sem hafa tekið breytingum eftir að þær voru fyrst lagðar fram. Þessi áform samrýmast ágætlega, þær efnislegu breytingar sem ríkisstjórnin hyggst leggja til fela í sér atriði sem telja má brýn og höfðu mikið verið rædd í stjórnarskrárnefndinni 2005 og 2007 og varðandi auðlindaákvæðið má að auki nefna starf auðlindanefndar á sínum tíma og frumvarp sem formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fluttu um að auðlindir sjávar væru sameign þjóðarinnar undir lok þings árið 2007. Þá hefur setning slíks ákvæðis verið í stefnuskrá tveggja síðustu ríkisstjórna, ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þar sem talað er um auðlindir sjávar, en í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um þjóðareign á náttúruauðlindum.

Þau atriði sem þarna eru talin upp og hugmynd stjórnarflokkanna er að verði sett inn í stjórnarskrá eru flest kunnug þingmönnum, eins og auðlindaákvæðið og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu, og ég tel að megi segja að þau hafi verið ítarlega rætt á milli stjórnarflokkanna.

Væntanlegt stjórnlagaþing mun hafa mörg vandasöm málefni til úrlausnar eins og t.d. varðandi stöðu og samspil æðstu handhafa ríkisvaldsins. Það er því ekki að mínum dómi gengið inn á verksvið þess þó að Alþingi samþykki nú breytingar sem lengi hafa verið í bígerð og góð samstaða á að geta verið um. Telji tilskilinn meiri hluti stjórnlagaþings og kjósenda síðar að lagfæra eigi með einhverjum hætti þá niðurstöðu verður það að sjálfsögðu hægt.