136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing.

295. mál
[14:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra vísaði hér í ræðu sinni til stjórnarskrárnefndar og starfs hennar á tímabilinu 2005–2007. Þar var mikið starf unnið, mikil gagnaöflun og miklar umræður. Ég get hins vegar fullyrt, vegna þess að ég sat í þeirri nefnd, að það var ekki komin niðurstaða í þau mál sem ríkisstjórnin dregur hér fram og leggur til að verði tekin fyrir á vorþinginu. Það var ekki komin nein niðurstaða í þessi mál frekar en fjöldamörg önnur mál sem varða stjórnarskrána og höfðu verið tekin til ítarlegrar og góðrar umræðu í stjórnarskrárnefndinni. Það er því ekki um það að ræða að þessir þættir hafi með einhverjum hætti verið fullkláraðir og annað hafi mátt bíða, það er einhver misskilningur. Og ef heimildarmaður hæstv. forsætisráðherra er hæstv. utanríkisráðherra þá hefur hann ekki haft góðar heimildir um það sem gerðist í þeirri stjórnarskrárnefnd.

Í sambandi við svar hæstv. forsætisráðherra vildi ég koma því að að samráðið sem talað er um hefur ekki verið mikið. Það hefur falist í því að mönnum hafa verið sýndar tillögur, flokkum hafa verið sýndar tillögur og þeir spurðir. Eruð þið með eða á móti? Öll vinnan hefur farið fram í þröngum ráðgjafahópi ríkisstjórnarinnar og aðrir hafa ekki komið að því.

Eins og fram hefur komið í umræðunni hafa stjórnarskrárbreytingar byggst á því að um þær væri víðtækt pólitískt samráð. Það hefur verið gefinn tími til þeirrar vinnu. Menn hafa gefið sér tíma til þess í ljósi þess að um grundvallarlög lýðveldisins er að ræða, grundvallarreglur sem menn eiga ekki að breyta í skyndi. Og enn spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að takmarka umboð stjórnlagaþings og segja: Við ætlum að breyta tilteknum ákvæðum stjórnarskrárinnar í vor og setja síðan stjórnlagaþinginu fyrir (Forseti hringir.) að taka aðrar breytingar fyrir á stjórnlagaþingi? Eða hefur stjórnlagaþing, eins og krafa hefur komið um bæði hjá (Forseti hringir.) almenningi og í fjölmiðlum, frjálsar hendur við (Forseti hringir.) heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar?