136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[14:57]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að endurreisn bankakerfisins er forsenda fyrir því að við getum komið atvinnulífinu í gang og þess vegna lagði ríkisstjórnin svona mikla áherslu á að fara í þær aðgerðir sem hún hefur gert að því er varðar endurreisn á bankakerfinu. En ég er ósammála hv. þingmanni sem heldur því fram að flestallar tillögur sem ríkisstjórnin hefur sett fram geti beðið. Ég bið hv. þingmann um að kynna sér þær tillögur sem liggja fyrir þinginu og snerta aðgerðir fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

En svo ég snúi mér beint að fyrirspurn hv. þingmanns um stofnun eignasýslufélags, eins og var í tillögum Mats Josefssons og félaga, er sjái um endurskipulagningu stórra fyrirtækja, þá er það afar mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf eins og nefnd um endurreisn bankakerfisins lagði til og ríkisstjórnin hefur kynnt. Slíkt fyrirkomulag hefur reynst mjög vel í mörgum öðrum löndum við aðstæður eins og þær sem við göngum nú í gegnum hér á landi. Ég vænti þess að hv. þingmaður hafi kynnt sér það. Það gefur bönkunum svigrúm til þess að einbeita sér að grunnþjónustu sinni og horfa til framtíðar fremur en til fortíðar. Það gefur tækifæri til þess að minnka efnahagsreikninga bankanna niður í eðlilegt svigrúm sem þeir eiga að hafa.

Að þessu er nú unnið á vegum ríkisstjórnarinnar, m.a. á vettvangi framkvæmdarnefndar um efnahagsaðgerðir ríkisstjórnar og skipun hennar var samþykkt í ríkisstjórn 16. febrúar síðastliðinn. Frágangur þessa máls hafði því miður dregist í tíð fyrri ríkisstjórnar og einstaka tillögur nefndarinnar munu koma til kasta hlutaðeigandi ráðuneyta eftir eðli þeirra og ljóst er að margt af því sem nefndin leggur til mun jafnframt þurfa að ræða og afgreiða á Alþingi.

Þá samþykkti ríkisstjórnin í gær að ganga til samninga við erlent ráðgjafarfyrirtæki um að vinna að samningagerð milli gömlu og nýju bankanna undir stjórn fulltrúa íslenskra stjórnvalda sem ég tel afar mikilvægt. Verkefnið sem um er að ræða er annars vegar ráðgjöf vegna þeirra samninga sem þurfa að eiga sér stað milli ríkisins fyrir hönd hinna nýju banka og kröfuhafa gömlu bankanna í tengslum við lokauppgjör. Í annan stað er ætlunin að nýta sér sérþekkingu þessara aðila varðandi fyrirkomulag og mögulegar lausnir í tengslum við uppgjörið. Gert er ráð fyrir því að verkefnið hefjist nú þegar og verði lokið innan þriggja mánaða sem er afar brýnt í endurreisn á bankakerfinu og þar með að koma atvinnulífinu til aðstoðar.

Fjármálaráðuneytið hefur jafnframt ákveðið að ráða Þorstein Þorsteinsson, rekstrarhagfræðing og fyrrverandi framkvæmdastjóra við Norræna fjárfestingabankann, sem sérstakan fulltrúa ríkisins til að sinna framangreindu verkefni. Markmið ríkisins með ráðningu alþjóðlegra fjármálaráðgjafa að þessu mikilvæga verkefni er ekki síst að lágmarka kostnað íslenska ríkisins og þar með skattgreiðenda af falli bankanna þriggja og uppbyggingu nýrra banka og að tryggja að á Íslandi verði starfandi traust bankakerfi að samningum loknum, að hraða uppgjöri við gömlu bankana eftir því sem kostur er og koma til móts við væntingar kröfuhafa eftir því sem við verður komið, og að viðhalda og byggja upp alþjóðlegt traust á Íslandi með því að ná niðurstöðum úr samningaviðræðunum.

Hvernig verða tillögurnar kynntar nánar fyrir Alþingi? er spurt. Fulltrúar nefndarinnar hafa þegar kynnt hugmyndir sínar fyrir viðskiptanefnd Alþingis. Þá er ljóst að til greina kemur að tillögur nefndarinnar muni fela í sér breytingar á lögum, svo sem lögum um fjármálafyrirtæki en um það atriði er m.a. fjallað í samkomulagi íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Málið og farvegur þess er núna í höndum fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd málsins.

Síðast er spurt hvort ráðherra sé tilbúinn að beita sér fyrir því að haldin verði ráðstefna þar sem nánar er rýnt í einstök atriði tillagnanna með bestu sérfræðingum, erlendum og íslenskum, sem völ er á. Nefnd um endurreisn fjármálakerfisins hefur á engan hátt lokið störfum sínum enda er hér aðeins um fyrstu ársfjórðungslegu starfsáætlun hennar að ræða. Í nefndinni sitja sérfræðingar þeirra stofnana og ráðuneyta sem hlut eiga að máli og sjálfsagt er að stuðla að því að tillögur nefndarinnar fái sem allra víðtækasta kynningu og umræðu í samfélaginu.