136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka tækifærið til þess að ræða stuttlega þessa fyrstu skýrslu frá nefnd sem kennd er við Mats Josefsson. Þessi skýrsla var ekki einungis lögð fyrir hv. viðskiptanefnd heldur einnig fyrir efnahags- og skattanefnd í síðustu viku. Ég verð að segja fyrir mína parta að þessi skýrsla ber vott um fagmennsku og uppfyllir væntingar um trúverðugleika sem nauðsynlegt er. Það byggist auðvitað að mestu á reynslu og þekkingu Mats Josefssons og því að ekki er verið að finna upp einhverja séríslenska leið heldur er verið að leggja til að farnar verði leiðir sem eru þrautreyndar annars staðar. Þar vísa ég til tillagna um móðurfélag með hlutabréf í bönkunum og eignaumsýslufélag um mikilvægustu fyrirtæki í landinu.

Ég tek undir það sjónarmið sem er grunnur í þessari skýrslu varðandi bankana að ekki er verið að leysa vanda bankanna sem slíkra heldur er verið að endurreisa efnahagslífið á heilbrigðum grunni. Útfærsla þessara leiða mun síðan kom inn (Forseti hringir.) á borð þingmanna í formi lagafrumvarpa.