136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:04]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Guðfinnu S. Bjarnadóttur fyrir þessa fyrirspurn. Eins og komið hefur fram er langmikilvægasta málið í þessari endurreisn eftir bankahrunið að koma efnahagsreikningi bankanna í lag og koma hinni almennu bankastarfsemi í landinu í gang. Það hefur ekki gerst.

Við erum búin að vera verklítil eða verklaus marga þingdaga og ég er ekki sammála því sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að mörg mál liggi fyrir er varða endurreisn bankanna. Við erum búin að vera verkefnalaus hér á þinginu, við höfum haft fá mál sem engin. Hv. forsætisnefnd veit ekki á mánudögum hvað á að gerast í þinginu næstu vikuna. Verið er að ákveða það dag frá degi, frá klukkutíma til klukkutíma, þannig að vinnubrögðin eru með eindæmum. Ég held að hæstv. forsætisráðherra þurfi að fara að skoða hvað verið er að gera. Það er nákvæmlega ekkert verið að gera í þessum málum. Ríkisstjórnin hefur (Forseti hringir.) engu skilað sl. mánuð.