136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

tillögur nefndar um endurreisn bankakerfisins.

320. mál
[15:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur að það er afar sérkennilegt að sjá og hlýða á að hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum skuli koma í pontu og halda því fram að núverandi ríkisstjórn hafi dregið lappirnar að því er varðar endurreisn bankakerfisins. Ég held að sjálfstæðismenn, sem fóru með þessi stóru efnahagsráðuneyti eins og forsætisráðuneytið og fjármálaráðuneytið, ættu að horfa í eigin barm að því er varðar endurreisn bankakerfisins. Tillögur Mats Josefssons hefðu getað verið komnar fram fyrir þó nokkru, áður en fyrri ríkisstjórn fór frá völdum, ef sú ríkisstjórn og þeir sem fóru þar með efnahagsráðuneytin hefðu sýnt dug í sér til þess að fylgja þeim málum eftir.

Sama gildir varðandi efnahagsreikning bankanna. Ég hef áhyggjur af því, eins og fram kom hjá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur áðan, að það skuli dragast að efnahagsreikningar bankanna liggi fyrir, ég er alveg sammála því. En hver fór með fjármálaráðuneytið í tíð fyrri ríkisstjórnar, hver fór með eigendabréfið í ríkisbönkunum? Var það ekki fyrrverandi fjármálaráðherra, Árni M. Mathiesen? Hann hefði getað lagt meira af mörkum til þess að efnahagsreikningarnir lægju fyrr fyrir. Það er alveg ljóst að þeir þurfa að liggja fyrir til þess að hægt sé að fara í nauðsynlega fjármögnun á bönkunum.

Mér finnst þeir því kasta steini úr glerhúsi, hv. sjálfstæðismenn, sem brigsla núverandi ríkisstjórn um að gera lítið í þessum málum. Þvert á móti hefur þessi ríkisstjórn frá fyrsta degi unnið að því að endurskipuleggja bankakerfið sem er forsenda fyrir því að við getum komið fyrirtækjunum í gang. Að halda því fram, eins og sumir sjálfstæðismenn hafa gert, að ekkert sé að gerast hjá þessari ríkisstjórn, hún hafi engin mál lagt fram og þau mál sem hún hafi lagt fram geti bara beðið. Þetta er furðuleg afstaða og ég bið hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins að kynna sér þau mál sem liggja fyrir þinginu og snerta atvinnulífið og aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Það er ótrúlegt að því skuli vera haldið fram (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn sé aðgerðalaus. (Gripið fram í.)