136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

344. mál
[15:18]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Er að vænta niðurstöðu verkefnis sem felur í sér kortlagningu vega og slóða á hálendinu og ákvörðunar um hvaða vegi og slóða sé heimilt að aka?“

Eins og hv. þingmaður kom að í máli sínu er henni vel kunnugt um það verkefni sem hér um ræðir en Landmælingar Íslands hafa unnið að því að mæla vegaslóða á landinu um nokkurt skeið. Þetta er afar viðamikið verkefni en vinnunni hefur miðað mjög vel áfram. Mælingunum er ekki að fullu lokið og eðli málsins samkvæmt eru síðustu slóðarnir alltaf tímafrekastir.

Samkvæmt upplýsingum Landmælinga Íslands er eftir að mæla um 300 leiðir á miðhálendinu eða um það bil 2.000 km. Stefnt er að því að þeim mælingum ljúki í sumar, 2009, en hafa ber í huga að bæði veður og færð gæti þó haft áhrif á þá vinnu. Í framhaldi af þeirri kortlagningu vinnur starfshópur undir forustu umhverfisráðuneytisins ásamt sveitarstjórnum að gerð tillagna um hvaða vegir og slóðar í óbyggðum skuli teljast til vega með það fyrir augum að eyða vafa um það efni og loka slóðum sem ekki falla undir skilgreininguna.

Í starfshópnum sitja, eins og hv. þingmaður sagði, fulltrúar frá Umhverfisstofnun, Landmælingum Íslands og Vegagerðinni. Þetta samvinnuverkefni starfshóps og sveitarstjórna er unnið í samvinnu við hagsmunaaðila og áhugasamtök. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hvenær vinnunni lýkur en vonast er til að það verði um það bil ári eftir að mælingunum lýkur, sem gæti þá orðið haustið 2010 ef allt gengur eftir áætlun.

Í annan stað spyr hv. þingmaður:

„Hvernig er samráði við Ferðaklúbbinn 4x4, samtök vélhjólamanna, hestamanna og aðra hagsmunahópa háttað í þessari verkefnavinnu?“

Eins og ég sagði áðan er þetta stóra verkefni samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins og sveitarfélaga sem lögsögu eiga á miðhálendinu. Þetta eru þeir aðilar sem bera mesta stjórnsýslulega ábyrgð. Umhverfisráðuneytið fer með náttúruverndarmálin og sveitarfélögin fara með skipulagsvaldið. Ég tel að samráð við hagsmunaaðila í málinu sé mjög mikilvægt. Þegar verkefnið var kynnt sveitarfélögunum í bréfi síðasta haust og síðar á fundi með nokkrum sveitarfélögum á Suður- og Austurlandi lagði starfshópurinn áherslu á samráð við alla hagsmunaaðila. Sveitarfélögin eru almennt jákvæð í garð verkefnisins og þau eru sammála ráðuneytinu að sem flestir eigi að koma að málinu en slíkt er í mínum huga lykilatriði til þess að sem mest sátt náist um verkefnið. Við skulum hafa það í huga að útivistarfélögin gæta mjög mismunandi hagsmuna. Að hluta til eru þetta vélhjólamenn, jeppamenn, hestamenn og göngufólk. Það þarf því að skoða þetta allt saman frá mjög ólíkum hliðum.

Fram að þessu hefur umhverfisráðherra, starfsmenn ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Landmælinga hitt félaga í Ferðaklúbbnum 4×4, Samút, samtökum útivistarfélaga, og samtökum vélhjólamanna. Þau samtök hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri og þau sjónarmið eru enn til skoðunar.

Til að auka enn á þetta samstarf við frjáls félagasamtök var nýlega stofnaður samráðshópur um fræðslu um bann við utanvegaakstri á vegum ráðuneytisins þar sem fulltrúar margra hagsmunaaðila hittast, þar á meðal umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka. Þessi vettvangur hefur að mati ráðuneytisins verið afar upplýsandi fyrir alla málsaðila en þar hefur m.a. verið upplýst um stöðu þeirrar vinnu sem nú fer fram um kortlagningu slóða og vega á hálendinu.

Að lokum spyr hv. þingmaður:

„Hví eiga fulltrúar hagsmunasamtaka ekki beina aðild að nefndinni sem vinnur verkefnið?“

Því er til að svara að nú eru fyrstu tillögur sveitarfélaganna að verða tilbúnar og í framhaldi af því verður haldinn fundur með öllum hagsmunaaðilum til skoðunar á þeim tillögum, ekki bara til kynningar heldur til skoðunar á þeim, þar sem hagsmunaaðilunum mun gefast kostur á að koma með athugasemdir sínar og tillögur að breytingum. Samráð af því tagi mun halda áfram eftir því sem verkinu vindur fram. Mjög mikilvægt er að þetta ferli sé samtvinnað þannig að hagsmunasamtök eigi aðkomu að ferlinu alveg fram til loka. Það liggur sem sagt fyrir að verkið er unnið fyrir opnum tjöldum og öllum mun gefast kostur á að gera athugasemdir áður en endanlegar ákvarðanir verða teknar.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sumir hagsmunaaðilar hafa óskað eftir að fá beina aðild að starfshópnum til viðbótar við samráðs- og kynningarfundina, en hafa ber í huga að hagsmunaaðilar í þessu máli eru margir. Þar má nefna, eins og ég sagði áðan, jeppa- og vélhjólamenn, önnur útivistarsamtök, umhverfis- og náttúruverndarsamtök, landeigendur, veiðifélög, bændur og fleiri aðila.

Ráðuneytið hefur litið svo á að ákveðin grunnvinna þurfi að fara fram áður en lengra er haldið með hagsmunaaðilunum sem eðli málsins samkvæmt yrðu að gæta mjög ólíkra hagsmuna. Þess vegna hefur ráðuneytið talið að ekki sé vel gerlegt að allir hagsmunaaðilar eigi beina aðild að nefndinni. Engu að síður vill ráðuneytið koma til móts við þær óskir og hefur óskað eftir því að Samút, samtök útivistarfélaga, tilnefni einn fulltrúa sem muni sitja fund með starfshópnum og sveitarfélögunum. Með því auk samráðs- og kynningarfundanna meðan á verkinu stendur og samráðsferli eftir að allar tillögur sveitarfélaga liggja fyrir, tel ég, hæstv. forseti, að vinnan sé unnin á eins opinn hátt og mögulegt er. Við verðum að átta okkur á því að utanvegaakstur er því miður vandamál í íslenskri náttúru (Forseti hringir.) og það skiptir verulegu máli að vinna málið í sátt og samlyndi og fara djúpt ofan í saumana á þessu öllu saman.