136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

344. mál
[15:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson kom einmitt inn á reiðvegina og að settir eru fjármunir í stíga fyrir hestamenn. Þetta sýnir nú dálítið aðstöðumuninn, það er mjög mikið, a.m.k. talsvert gert fyrir hestamenn en nánast ekki neitt fyrir vélhjól. Ekki er einu sinni hægt að koma upp almennilegum æfingasvæðum án þess að það kosti einhver voðaleg átök og leiðindi. Það þarf auðvitað að sinna þeim hópum miklu betur en gert er í dag.

En ég fagna því sem hæstv. ráðherra sagði og ég túlka orð hennar þannig að hún hafi dregið það sérstaklega fram að mjög mikilvægt sé að hafa samráð. Það er rétt.

Hæstv. ráðherra bindur vonir við að hægt sé að klára þetta verkefni 2010. Ég tel að það sé ekki hægt nema að samráð verði mjög sterkt. En ég er svolítið uggandi yfir því sem hæstv. ráðherra sagði að þegar sveitarfélögin eru búin að fara yfir þetta, þá eigi að fara í samráð. Ég tel að samráð þurfi að vera miklu fyrr. Það þarf að vera samhliða. Það er svo erfitt fyrir hagsmunahópa að koma inn seint í ferlið og að brjóta þurfi eitthvað niður sem búið er að setja fram.

Ég tel að málinu sé til hagsbóta að Samút fái fullgildan meðlim í nefndina sem nú er að störfum, ekki bara áheyrnarfulltrúa heldur fullgildan meðlim í nefndina. En þar fyrir utan verði líka alveg sérstakt samráð við hagsmunaaðila. Þeir sem maður hefur verið í sambandi við, ég hef rætt við þessa hópa, finna ekki þetta samráð. Þeir vilja samráð og þeir eru með útrétta hönd en ekki er tekið í þá hönd.

Ég finn þennan góða vilja hjá hæstv. ráðherra og ég skora því á hæstv. ráðherra að tala aðeins skýrar hvort ekki sé hægt að segja við þessa hagsmunaaðila að það verði örugglega haft samráð á frumstigi og það samráð sé að hefjast.