136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

kortlagning vega og slóða á hálendinu.

344. mál
[15:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get sagt það aftur sem ég sagði í fyrri ræðu minni, ég tel mjög mikilvægt að samráð sé opið og það sé öflugt og allir komist að því borði.

Hins vegar átta ég mig líka á því eins og við hv. þingmenn vitum að skipulagsmál eru með flóknustu málum og hagsmunirnir eru gríðarlega ólíkir. Hagsmunir vélhjólamanna, sem vilja fá slóða með einu hjólfari fyrir hjólin þar sem hægt er að fara í torfæruakstur, fara t.d. ekki saman við hagsmuni þeirra göngumanna sem vilja kannski nýta sömu leið til að ganga í kyrrð íslenskrar náttúru.

Til að allir fái að láta sjónarmið sín koma fram í þessari vinnu þá er að mínu mati búið að opna fyrir það samráð, t.d. fræðsluhópurinn með beinni aðkomu Samút, en það má vel skoða hvort einhverjir fleiri aðilar eigi að koma með beinum hætti að starfi nefndarinnar. En ég held að það sé mjög erfitt að velja þá.

En engu að síður skiptir máli að Samút er þarna við borðið. Fulltrúi frá þeim er til staðar, áheyrnarfulltrúi, en við vitum að ýmislegt gott kemur frá áheyrnarfulltrúum og þeir hafa málfrelsi og tillögurétt. Ég treysti Samútfulltrúunum alveg til þess að koma með þær hugmyndir á fundina sem Samút vill vernda og standa fyrir.

Ég tek undir það að utanvegaakstur er eins og ég sagði áðan vandamál í íslenskri náttúru. Við höfum haft við erfiðleika að glíma vegna þess að farið hefur verið út fyrir slóða. Slóðar hafa verið búnir til þar sem engar heimildir eru fyrir að búa til slóða.

Ég veit af góðum vilja jeppamanna að koma að þessari vinnu og tekið hefur verið í útrétta hönd, a.m.k. að einhverju marki eins og hv. þingmaður veit, þar sem jeppamenn hafa verið með í því að loka slóðum. Meðan ég starfa í umhverfisráðuneytinu (Forseti hringir.) mun ég tala fyrir því að samráðið verði styrkt og verði sem öflugast.