136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ellerti B. Schram fyrir þessa spurningu um endurskoðun og einföldun á almannatryggingakerfinu og hvað því starfi líði. Eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni skilaði verkefnisstjórnin mjög umfangsmiklum tillögum um fyrstu aðgerðir til að breyta almannatryggingakerfinu í lok ársins 2007 og voru þær flestar lögleiddar á síðasta ári og fólu í sér miklar og mikilvægar breytingar á kjörum elli- og örorkulífeyrisþega með afnámi makatengingarinnar, eins og hv. þingmaður nefndi, afnámi skerðingarbóta vegna séreignarsparnaðar, setningu frítekjumarks á fjármagnstekjur, hækkun frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna öryrkja og atvinnutekna allra lífeyrisþega og lækkun skerðingarhlutfalls ellilífeyris og svo mætti lengi telja — sem ég ætla ekki að gera, því hv. þingmenn þekkja þetta frá árinu 2007.

Verkefnisstjórninni var síðan ætlað að skila tillögum um langtímastefnumótun og nauðsynlegar lagabreytingar þar að lútandi fyrir 1. nóvember 2008. Ljóst er að ekki er um einfalt verk að ræða og hefur sá tími sem verkefnisstjórnin fékk til umráða reynst of skammur og sérstaklega í ljósi þess sem gerðist í lok síðasta árs. Þá hefur verkefnisstjórnin fengið í hendur ýmis fleiri verkefni svo sem að koma með útfærslur á tillögum um svokallaða lágmarksframfærslutryggingu sem kom til framkvæmda 1. september og tryggir lífeyrisþegum ákveðna lágmarksfjárhæð til framfærslu. Eins og menn vita er sú fjárhæð 180 þús. kr. á mánuði fyrir þá sem njóta heimilisuppbótar og 153.500 fyrir þá sem ekki njóta heimilisuppbótarinnar, þ.e. halda heimili með öðrum.

Ég hef lagt mikla áherslu á það að verkefnisstjórnin haldi áfram því góða starfi sem hún sinnir, enda er aldrei mikilvægara en nú að við hlúum að velferðarkerfinu og treystum það þannig að þeir sem þurfa að treysta á framfærslu þess fái þann stuðning sem þeim ber. Þess vegna er áríðandi að verkefnisstjórnin hraði verki sínu og ég hef beðið hana um að skila umræðutillögum í þessum mánuði. Hér verður um að ræða stefnuskýrslu þar sem reifaðir verða gallar núverandi kerfis og lagðar fram hugmyndir um breytingar og úrbætur. Nýjar hugmyndir munu byggja á heildstæðri endurgerð lífeyrisþáttar almannatryggingakerfisins með mikilli einföldun, auknu gagnsæi og breyttri virkni í samskiptum lífeyrissjóða og almannatrygginga. Í þessu felst m.a. fækkun bótaflokka, hækkun frítekjumarka og breyttar reglur um skerðingarákvæði vegna tekna. Eftir að þær hugmyndir hafa verið kynntar hagsmunaaðilum og öðrum mun verkefnisstjórnin taka þær aftur upp til lokafrágangs og semja tillögur að lagabreytingum um endurskoðun löggjafarinnar. Við endurskoðun almannatryggingalöggjafarinnar verður að vanda til verka, mikið er í húfi og horfa verður til framtíðar. Sú löggjöf sem við búum nú við er að stofni til gömul og margstagbætt, eins og ég hef oft nefnt í þessum ræðustól.

Nú á sem sagt að gera grundvallarbreytingar á kerfinu í heild en ekki setja plástur á það eins og hefur tíðkast á undanförnum áratugum. Óhjákvæmilegt er að erfitt efnahagsástand hafi áhrif á störf verkefnisstjórnarinnar og fyrirhugaðar breytingar á lífeyriskerfinu. Ég tel ljóst að breytingarnar verði að taka gildi í áföngum en komi ekki allar til framkvæmda á sama tíma. Stefni ég að því að fyrstu breytingarnar í þeirri heildarendurskoðun sem fram undan er öðlist gildi um næstu áramót og þá verði fyrst og fremst um að ræða breytingar sem ekki kosta mikla fjármuni en þjóna þeim tilgangi að einfalda kerfið og gera það gagnsærra. Þannig verður í fyrstu atrennu gerð tillaga um nýtt heildstætt kerfi sem ekki þarf að fela í sér meiri útgjöld en nú eru í lífeyristryggingunum. Hafa þarf í huga að þær lagabreytingar sem verkefnisstjórnin vinnur að verða ekki unnar án þess að litið sé á heildarmyndina. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins hefur um nokkurt skeið unnið að tillögum sem fela í sér algera endurskoðun á fyrirkomulagi örorkumats. Stefnt er að áherslubreytingu þannig að nálgun matsins sé jákvæðari og litið á hvað fólk getur en ekki hvað það getur ekki. Samhliða hefur verið unnið að fjölgun starfsendurhæfingarúrræða og því miður hefur vinna við breytingar á örorkumatskerfinu gengið hægar en æskilegt er þótt tillögugerð sé komin nokkuð á veg. Ég tel óheppilegt að fjalla um jafnskyld mál og endurskoðun almannatryggingakerfisins og nýtt örorkumatskerfi hjá tveimur ráðuneytum (Forseti hringir.) og hef því ákveðið að leita samráðs við forsætisráðuneytið um hvort færa megi verkefni örorkumatsnefndarinnar til félags- og tryggingamálaráðuneytisins.