136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

einföldun á almannatryggingakerfinu.

338. mál
[15:40]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka það að þessi fyrirspurn kom fram og þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra gaf. Ég vek athygli á því að á síðasta kjörtímabili fluttu þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins sameiginlega tillögu um framtíðarskipan lífeyrismála og ég held að þar hafi verið lagt upp með nokkuð merkilegt plagg og merkilega framsetningu, sem byggði á því að þeir sem þurfa aðstoð geti fengið hana og síðan verði sérstaklega litið til þess að fólk komist almennt af á þeim tekjum, lífeyrisgreiðslum og þjónustu sem ríkið er tilbúið til að veita og veitir á hverjum tíma.

Nú hagar hins vegar þannig til, hæstv. forseti, að frítekjumark er komið á ýmsar tekjur, fjármagnstekjur, atvinnutekjur og á séreignarsparnaði verður ekki skerðing en út af stendur eitt, venjulegar lífeyristekjur sem skerða tryggingabætur. (Forseti hringir.) Ég beini því sérstaklega til ráðherra að huga að því.