136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

Hólaskóli – Háskólinn á Hólum.

347. mál
[15:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Gríðarleg uppbygging hefur verið á háskólasviðinu á síðustu árum. Við höfum náð að fjölga háskólanemum og byggja upp kennslu og rannsóknir á markvissan hátt. Að mínu mati eykst mikilvægi menntamálaráðuneytisins enn meira vegna þess að við förum nú í gegnum erfiða tíma og við vitum að ein meginviðspyrnan í þeim erfiðleikum verður menntun, rannsóknir og sprota- og nýsköpun sem er ekki síst afleiðing öflugs háskólastarfs.

Þar kemur Háskólinn á Hólum sterkur inn en það er lykillinn að því að við náum jafnvægi í rekstri. Ég tek undir með hæstv. menntamálaráðherra að það skiptir miklu máli. Á þeim grundvelli, af því að fyrir lá ákveðin skýrsla, var ákveðið að setja inn í fjárlög og fjáraukalög um 170 milljónir til þess að styrkja rekstur skólans með það að markmiði að fá atvinnulífið, aðila heima í héraði, til þess að bera enn meiri ábyrgð á rekstrinum. Ég er sannfærð um að það sé farsældarspor að fá fleiri til (Forseti hringir.) að bera ábyrgð á rekstri þeirrar mikilvægu starfsemi sem fram fer á Hólum. Við verðum að halda betur utan um hana, við verðum að styðja skólann en við verðum að gera það markvisst og með reksturinn í huga. Öðruvísi næst það ekki.