136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:04]
Horfa

Geir H. Haarde (S):

Virðulegi forseti. Ég vil segja nokkur orð um það frumvarp sem mælt var fyrir fyrr í dag um breytingar á kosningalögunum. Ég vil að það komi strax fram að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki aðili að flutningi þessa máls og var ekki gefið færi á að koma með athugasemdir eða ábendingar varðandi frumvarpið þótt málið hafi vissulega verið kynnt fyrir flokknum. Þessi vinnubrögð fara mjög í bága við það sem tíðkast hefur þegar breytingar hafa verið gerðar á kosningalögum og kannast ég ekki við það þau 22 ár sem ég hef setið á þingi að staðið hafi verið að málum með þessum hætti.

Mér er reyndar illskiljanlegt hvers vegna þetta tiltekna mál er nú svo mikilvægt í augum núverandi stjórnarflokka vegna þess að ég minnist þess ekki að það hafi nokkurn tímann borið á góma í fyrri ríkisstjórn að brýnt væri að breyta reglum um kosningar til Alþingis.

Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn tekur ekki þátt í því að leggja þetta frumvarp fram er hins vegar ekki sú að við séum endilega á móti því að opna möguleika á auknu persónukjöri við kosningar. Við teljum hins vegar, eins og komið hefur fram, að slík breyting þurfi miklu meiri og betri undirbúning en hér hefur átt sér stað og miklu meiri umræður í þjóðfélaginu sjálfu. Þær hafa nákvæmlega engar verið í tengslum við málið núna.

Við teldum fara vel á því að ef það ætti að stíga skref sem þetta væri gerð tilraun, t.d. í næstu sveitarstjórnarkosningum í sveitarfélögum sem þess kynnu að óska, sem gengi út á að prófa hvernig svona fyrirkomulag virkar og hvort ánægja yrði með það hjá viðkomandi kjósendum.

Hugmyndin sem slík er að sjálfsögðu umræðunnar virði, en á henni eru hins vegar ýmsir ágallar. Það eru þeir sem ekki hafa verið ræddir nægjanlega mikið að okkar dómi og það eru þeir sem gera það að verkum að ýmsir hafa fyrirvara á þessu máli, efnislega séð, burt séð frá vinnubrögðum og tímasetningu.

Með frumvarpi sem þessu er í raun og veru verið að flytja prófkjörin hjá flokkunum inn í sjálfar kosningarnar. Þannig háttar til um þessar mundir að ég held að allir stjórnmálaflokkarnir séu meira og minna búnir að skipuleggja hjá sér einhvers konar prófkjör eða forval. Slík barátta er oft hörð eins og við þekkjum og þess eru dæmi að menn hafi legið sárir eftir slík átök og það hafi tekið ákveðinn tíma að jafna mál á milli manna eftir slíkt.

Ég held að menn þurfi að hugsa það alveg í þaula hvernig þeir sjá fyrir sér kosningabaráttu, t.d. til Alþingis, þar sem takast á stjórnmálaflokkar ef stjórnmálamennirnir innan flokkanna eru síðan innbyrðis að takast á um röðun í sæti á lista. Og hver er leiðtogi listans í hverju kjördæmi fyrir sig ef þannig háttar til og hver er talsmaður hans ef ekki er búið að ganga frá því fyrir fram?

Annað mál sem þetta snertir er svo það að við höfum nýlega samþykkt hér á Alþingi frumvarp um fjármál stjórnmálaflokka þar sem kveðið er á um fjármögnun prófkjörsbaráttu. Ef þetta tvennt blandast saman, prófkjörsbarátta og kosningabarátta, hvernig á þá að víkja reglunum um fjármögnun að slíku nýju dæmi? Það hefur ekki verið hugsað í þessu frumvarpi. Hvernig á að ganga frá fjárveitingum eða fjáröflun í þessu skyni? Á að telja fjárstyrki til einstakra frambjóðenda með framlögum til flokkanna innan þess hámarks sem leyfilegt er að gefa flokkunum af hálfu einstaklinga eða fyrirtækja eða á að fara einhverja aðra leið í því? Þessum spurningum hefur ekki verið svarað en það hefði verið eðlilegt að taka á slíkum atriðum í þessu frumvarpi og breyta því þar með í bandorm og breyta þessum lögum þá í leiðinni. Þetta er eitt af því sem ekki hefur verið fjallað um svo að ég nefni bara nokkur atriði í þessu sambandi sem mér finnst leika vafi á.

Ég hef látið koma hér fram fyrr í dag að við teljum þess utan að þetta mál sé allt of seint fram komið. Kosningar eiga að fara fram samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið á blaðamannafundi forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar 25. apríl. Þangað til eru rúmar sjö vikur. Í tilmælum frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, og frá Feneyjanefndinni svokölluðu, sem starfar, að ég hygg, á vegum Evrópuráðsins, er farið yfir hvað teljast góðar venjur og góðir siðir þegar kemur að kosningareglum. Báðir aðilarnir telja að ekki eigi að breyta reglunum nema með mjög góðum fyrirvara fyrir kosningar. Í ÖSE-skjalinu um þetta er talað um að reglum eigi ekki að breyta nema ár sé í kosningar, að minnsta kosti. Reyndar er það Evrópuráðsnefndin, Feneyjanefndin, sem talar um eitt ár, hinn hópurinn talar um mjög góðan fyrirvara.

Ég tel að gera verði greinarmun hér á efnisbreytingum á kosningalögunum og svo tæknilegum eða smávægilegum breytingum. Ég tel að við getum leyft okkur að breyta kosningalögunum, þótt með stuttum fyrirvara sé, ef um er að ræða hreinar tæknilegar breytingar eins og við höfum reyndar gert þessa dagana og hefur stundum áður verið gert. En tillagan sem gerð er í frumvarpinu hér í dag er ekkert smámál, hún er um að gjörbreyta eðli kosningafyrirkomulagsins. Þess vegna þarf að gefa eðlilegan fyrirvara á slíku. Þess vegna held ég mig við það sem ég hef áður sagt, það stendur til með þessu að breyta leikreglunum í miðjum leik. Það bara gengur ekki upp að mínum dómi, þegar flokkarnir eru farnir að vinna eftir gildandi reglum og allir hafa gengið út frá því að stillt yrði upp með hefðbundnum hætti.

Menn verða síðan að gera upp við sig hvort þeir vilja efnislega flytja prófkjörin inn í kosningarnar sjálfar og þar hefur hver og einn þá skoðun sem hentar en ég er efasemdamaður í því efni þótt ég telji sjálfsagt að ræða þetta mál.

Síðan hefur önnur spurning komið hér fram í andsvörum fyrr í dag. Spurt var hvort flutningsmenn hefðu leitað af sér allan grun um það hvort í þessu efni, varðandi breytingar sérstaklega á 110. gr. kosningalaganna, ætti við það ákvæði stjórnarskrár að til að geta gert breytingar þyrfti tvo þriðju hluta alþingismanna, tvo þriðju samþykktra atkvæða á Alþingi, til að slíkar breytingar næðu fram að ganga.

Um þetta ríkir vafi og lögð hafa verið fram tvenns konar lögfræðiálit í þessu skyni þar sem lagt er á þetta mat. Ég tel ekki að við þurfum sérstaklega á því að halda að kalla fram lögfræðileg vafaatriði eða ágreining um mál sem þetta eins og nú standa sakir í þjóðfélaginu. Ég tel að nóg sé komið af slíku, ríkisstjórnin er að taka ákveðna áhættu gagnvart stjórnarskránni við ráðningu á nýjum seðlabankastjóra, við höfum ekki gert okkur mat úr því hér í þingsal en ég tel ekki að bæta eigi fleiri slíkum vafaatriðum inn í þá þjóðfélagsmynd sem við erum að fást við hér á Alþingi núna. Það á ekki að búa til lögfræðileg álitamál að ástæðulausu, það á ekki að kalla fram vafa um það hvort gerningar framkvæmdarvalds eða löggjafarvalds standist stjórnarskrána.

Við vitum aldrei hvenær einhver fer í mál og lætur á slíkt reyna. Og hvað gera menn ef ákvarðanir eru dæmdar ógildar af þar til bærum dómstólum við aðstæður sem þessar? Ég tel að um þetta ríki vafi, ég hef séð lögfræðiálit sem hníga í báðar áttir hvað þetta atriði varðar og það eitt nægir manni til að sýna fram á að það er vafi í málinu og honum hefur ekki verið eytt.

Ég vil svo bæta því við, virðulegi forseti, að Alþingi hefur mörgum mikilvægum hnöppum að hneppa um þessar mundir. Ríkisstjórnin hefur kynnt það að hún sé búin að afgreiða ein 29 þingmál, frumvörp og þingsályktunartillögur, sem taka þurfi til afgreiðslu hér á Alþingi. Einhver þeirra eru komin fram, eitt eða tvö mál hafa þegar verið afgreidd, annað er í þingflokkum stjórnarflokkanna og enn annað er ekki einu sinni komið það langt. Sum þessara mála eru það sem kallast mundu góð mál í þeim skilningi að um þau ætti að geta orðið góð sátt og eins og margoft hefur komið fram munum við í Sjálfstæðisflokknum greiða fyrir öllum slíkum málum sem varða hagsmuni atvinnulífs og einstaklinga í þeirri efnahagskreppu sem nú er við að fást. En mál sem þetta á ekkert erindi inn í þann skjalabunka. Það er af nógu öðru að taka hér á Alþingi þótt ekki sé verið að eyða tímanum í mál af þessu tagi um þessar mundir. Það væri miklu nær að taka þetta frumvarp til hliðar við núverandi aðstæður, sameinast um að láta á það reyna hvort hægt væri að breyta lögum um kosningar til sveitarstjórna á næsta vetri með góðum fyrirvara, ekki með örfárra vikna fyrirvara, og gera tilraun með þetta fyrirkomulag. Það held ég að væri vitið meira en snúa sér nú á Alþingi að öðrum og veigameiri og meira aðkallandi þingmálum en vera ekki að sóa tímanum í mál sem þetta, hvorki hér í þingsal né í þingnefndum. Á það reyndar við um eitt eða tvö önnur mál sem mér skilst að ríkisstjórnin ætli að freista að koma hér fram en hafi ekkert með að gera þá þröngu stöðu í efnahagsmálum sem uppi er.

Þetta eru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri, virðulegi forseti. Auðvitað er hægt að tína til margt fleira sem snertir þetta mál, ég tel hins vegar að sú vinna sem unnin hefur verið sé um margt gagnleg og ég vil sérstaklega þakka aðalsérfræðingi ríkisstjórnarinnar og landsmanna, Þorkeli Helgasyni, sem situr hér í hliðarsal og hefur unnið þetta mjög samviskusamlega eins og ævinlega þegar til hans hefur verið leitað um að greiða úr vandamálum eða útskýra mál sem varða kosningalögin og það sem þeim tilheyrir. Ég er ekki að draga úr því að það er gott að þetta kemur fram og að menn geti haft þetta til hliðsjónar ef síðar meir verður ákveðið að ráðast í breytingar sem þessar sem ég teldi sem sagt heppilegt og hyggilegt að fresta til haustsins og gera þá vel undirbúna tilraun í einhverjum sveitarstjórnum sem bjóðast til að taka þátt í slíku.