136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:24]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má vel vera að hv. þingmaður hafi þá skoðun að lögin um kosningar séu stjórnarskránni æðri og af því að það stendur í kosningalögunum að þetta eigi bara við 108. gr. og 106. gr. þá komi 110. gr. ekki til álita hvað varðar þetta ákvæði í stjórnarskránni. Þessar greinar eru allar í sama kaflanum og kaflinn heitir Úthlutun þingsæta. Það er verið að tala um það í stjórnarskránni að ekki megi breyta ákvæðum um úthlutun þingsæta nema með tveimur þriðju atkvæða á Alþingi.

Ég ætla ekki að blanda mér í þann lögfræðilega ágreining. Ég vek bara athygli á að hann er til staðar vegna þess að hér liggur fyrir vel rökstutt lögfræðiálit um það að menn væru að kalla yfir sig vafamál sem er fullkomlega ástæðulaust við núverandi aðstæður. Það er ekki eins og nauðsyn brjóti lög í þessu efni að það sé einhver slík nauðsyn sem kalli á þetta.

En varðandi það hvort þetta sé mikil eða lítil breyting þá er náttúrlega aðalatriðið það, samanber þau tilmæli sem ég hef vitnað til utan lands frá, að þegar ferlið er komið í gang þá eiga menn réttmætar væntingar, eins og lögfræðingar kalla það, til þess að reglum verði ekki breytt. Það er nákvæmlega það sem er, það er margt fólk að gefa kost á sér í prófkjör í öllum flokkunum og gerir sér þar með væntingar og vonir um að ná ákveðnum sætum en auðvitað á grundvelli þeirra reglna sem gilda um kosningarnar í dag. En það væri, held ég, mjög óeðlilegt gagnvart slíkum aðilum að ætla núna að segja að prófkjörið skipti engu máli, það verði bara raðað upp á nýtt á kjördag o.s.frv. Menn ganga til þessa leiks á grundvelli ákveðinna reglna, menn vita hvernig kosningalögin eru gagnvart útstrikunum og þess háttar en eiga væntingar um annað og þær eru réttmætar.