136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:28]
Horfa

Geir H. Haarde (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að þingmaðurinn sé að tala um það sem á að tala hér um. Það stendur í stjórnarskrárákvæðinu að ekki megi gera breytingu á því sem kallað tilhögun á úthlutun þingsæta sem fyrir er mælt í lögum nema að aukinn meiri hluti alþingismanna samþykki það. Og álitamálið er þá hvort 110. gr., sem er náttúrlega meginefni þessa frumvarps, falli undir þetta ákvæði í stjórnarskránni eða ekki. Það er það sem menn greinir á um og þar er vafinn. Það hefur ekkert að gera með breytingar sem voru gerðar síðast. Það hefur ekkert að gera með lögin eins og þau eru núna eða síðustu þingkosningar. Það hefur bara með það að gera hvort þurfi tvo þriðju þingmanna til að gera breytingar á 110. gr. kosningalaga, samanber þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Það er risinn upp vafi, það er risinn upp lögfræðilegur ágreiningur. Því skyldum við kalla slíkt yfir okkur eins og nú standa sakir?