136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Geir H. Haarde var að vitna í Feneyjanefnd Evrópuráðsins og ÖSE að það sé óæskilegt að breyta kosningalöggjöf skömmu fyrir kosningar. Það eru alveg rök fyrir því og mjög eðlileg rök, hvar er byrjað o.s.frv. og menn verða að hafa einhvern aðdraganda að reglunum sem þeir spila eftir.

En mig langar til að inna hv. þingmann eftir því hvort sú leið sem hér er valin, að bjóða upp á þetta val, hvort hv. þingmaður telji að það komi að hluta til til móts við þessi sjónarmið. Af því að þá geta flokkarnir valið að vera í óbreyttu kerfi, að gera engar breytingar, og þeir sem vilja gera breytingar hjá sjálfum sér, þeir flokkar bjóði upp á óraðaða lista. Telur hv. þingmaður að þetta komi til móts við þær ábendingar að það eigi ekki að breyta kosningalögum stuttu fyrir kosningar? Maður mundi alveg fallast á þau rök ef verið væri að breyta algjörlega um kerfi. Ef allir þyrftu að ganga inn í nýtt kerfi þegar ferlið er hafið væri það mjög óeðlilegt.

Svo vil ég líka spyrja hv. þingmann út í þetta kerfi yfirleitt, að geta valið, ef það yrði nýja kerfið. Segjum að það yrði samþykkt hérna eða væri til umræðu á miðju kjörtímabili, segjum það. Hefur hv. þingmaður skoðun á því hvort það að flokkarnir geti valið yfirleitt sé rétt eða rangt?

Í Danmörku geta flokkarnir valið óraðaðan lista eða raðaðan. Þar er þetta val. En það hafa líka komið fram sjónarmið um að eðlilegt væri að það sama gilti um öll framboð. Annaðhvort væru allir með óraðað eða allir með raðað. Hefur hv. þingmaður skoðun á þessu? Og ég bendi á að ég ímynda mér þá að slík umræða færi fram á miðju kjörtímabili en ekki rétt fyrir kosningar.