136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að blanda mér í þá umræðu sem hér er hafin um frumvarp til laga um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis á þskj. 622 sem er flutt af þingflokksformönnunum, hv. þingmönnum Lúðvíki Bergvinssyni, Jóni Bjarnasyni, Siv Friðleifsdóttur og Grétari Mar Jónssyni.

Þegar hefur farið fram nokkur umræða um ýmis grundvallaratriði sem tengjast þessu máli. Í framsögu sinni með málinu gerði hv. þm. Lúðvík Bergvinsson grein fyrir efnisatriðum frumvarpsins þannig að ég ætla út af fyrir sig ekki að endurtaka þau en velta upp nokkrum sjónarmiðum sem þegar hafa komið fram og eru að sjálfsögðu álitamál í þessu efni.

Í fyrsta lagi hafa menn staldrað við tímasetningu þessa frumvarps og velt því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að koma með frumvarp til laga um breytingu á kosningalögum svo skömmu fyrir kosningar eins og raun ber vitni. Það er skoðun mín, og ég get að því leyti tekið undir með hv. þm. Geir H. Haarde, að það sé almennt skynsamlegt að fjalla um breytingar á kosningalögum í nokkurri fjarlægð frá kosningunum sjálfum. Það er betra að setja vissa fjarlægð á milli umræðunnar um fyrirkomulag og tilhögun kosningalaganna og síðan kosninganna sjálfra. Að því leyti til eru ábendingar sem hv. þm. Geir H. Haarde hefur vísað til og koma m.a. frá ÖSE og Evrópuráðinu og ég hef skoðað auðvitað ekkert óeðlilegar í sjálfu sér.

Hins vegar verður líka að líta til þess að við höfum verið í nokkuð óvenjulegum aðstæðum í vetur í íslensku samfélagi. Það hefur verið mikill órói í samfélaginu og það hefur skapast mikið vantraust á milli almennings í landinu og stjórnvalda. Á fjölmennum mótmælafundum í höfuðborginni og víðar um land hafa komið fram kröfur um miklar kerfisbreytingar og opnari og gagnsæjari stjórnsýslu og aukna aðkomu almennings að því hverjir verða kjörnir inn á löggjafarsamkomuna. Þetta eru vissulega óvenjulegar aðstæður sem ég held að sé óhjákvæmilegt að við tökum tillit til. Þess vegna er ekki að undra þegar ríkisstjórnin var mynduð um mánaðamótin janúar/febrúar að þetta væri eitt af þeim atriðum sem ríkisstjórnarflokkarnir settu inn í verkefnaskrá sína að þeir vildu beita sér fyrir. Það var svar við mjög þungri og háværri kröfu úti í samfélaginu og sem ég held að við öll í hjarta okkar séum sammála, að það eigi að gefa kjósendum kost á að hafa meira að segja um það hvaða einstaklingar ná kjöri úr þeim flokkum sem viðkomandi kýs að greiða atkvæði sitt. Við erum að mæta því með þessu frumvarpi. Þess vegna lít ég á tímasetningu frumvarpsins svolítið í því ljósi og tel að það séu rök fyrir því að koma með málið inn á þessum tímapunkti í aðdraganda næstu kosninga og það sé brýnt að við fjöllum um það og freistum þess að ná því fram að það geti orðið að lögum fyrir þær alþingiskosningar sem núna fara í hönd.

Það breytir ekki því að vissulega eru ýmis álitamál í frumvarpinu og það er reyndar í greinargerðinni með frumvarpinu sjálfu gerð grein fyrir þeim álitamálum sem komu upp og þarf að ræða og fjalla um og það hlýtur að vera verkefni þingsins og þeirrar þingnefndar sem fær málið til meðferðar að fara í saumana á þeim álitamálum og móta sér skoðanir á þeim og vonandi komast að einhverri góðri niðurstöðu um það hvernig frumvarpið verður síðan best afgreitt og gert að lögum. Ég ætla að nefna nokkur af þessum álitamálum.

Í fyrsta lagi er spurningin um valkvætt fyrirkomulag. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að framboð geti valið um hvort það stillir upp sínum framboðslista óröðuðum eins og það er kallað eða röðuðum. Með röðuðum framboðslista er gert ráð fyrir ámóta eða áþekku fyrirkomulagi og gerist í dag, að flokkur eða framboðsaðili ákveði röðunina á framboðslistanum fyrir fram og það er ekki hægt að gera miklar breytingar á þeim, þ.e. þær breytingar sem kosningalögin eins og þau eru í dag heimila, útstrikanir og endurröðun sem vissulega hefur lítið vægi í gildandi kosningalögum. Hins vegar er óraðaður listi, sem er hugsanlega settur upp í stafrófsröð og hlutað til um fyrsta staf eða bara raðaður í stafrófsröð eins og landsmenn kunna stafrófið flestir og síðan sé númerað og það sé alfarið sú númering sem kjósendur gera sem ræður því hvaða einstaklingar ná kjöri. Sjálfum fyndist mér heppilegra að það væri eitt fyrirkomulag sem væri látið ganga yfir alla en að það sé valkvætt. Það getur aukið á rugling og í öllu falli tel ég að ef um valkvætt fyrirkomulag er að ræða væri heppilegt að breyta líka fyrirkomulagi kjörseðlanna. Í staðinn fyrir að vera með kjörseðil þar sem allir flokkar eru nefndir á einum kjörseðli sem gæti þá verið mismunandi hvort er raðaður eða óraðaður listi þá væri skynsamlegra að fara t.d. þá leið sem er í Noregi að í kjörklefanum er bunki með kjörseðil fyrir hvern einasta framboðslista og viðkomandi tekur þann framboðslista sem hann vill kjósa, gerir á honum breytingar, setur hann í umslag og þannig fer hann í kjörkassann. Þetta er tæknilegt atriði og er ekkert úrslitaatriði í þessu. Ég nefni þetta bara sem eitt af þeim álitamálum sem þarf að fjalla um.

Í öðru lagi nefni ég fléttulistana, þ.e. hvernig við tryggjum sem jafnast hlut kynjanna í stjórnmálum inn á Alþingi. Ég hef áhyggjur af því að fyrirkomulagið með algerlega óraðaða lista geti gert okkur mjög erfitt fyrir að viðhafa einhvers konar fléttulista eða lista þar sem er jafnt hlutfall karla og kvenna og að því leyti til séum við hugsanlega að tefla í tvísýnu því starfi sem þrátt fyrir allt hefur verið unnið á undanförnum árum, og meira hjá sumum stjórnmálaflokkum en öðrum, að tryggja sem jafnast hlut beggja kynja á Alþingi. Ég mun þess vegna vilja velta því fyrir mér í vinnu nefndarinnar hvort hægt sé að taka á þessu með einhverjum hætti, t.d. í óröðuðum listum.

Hér hefur verið nefnt að með því að vera með algerlega óraðaða lista séum við að færa prófkjörin inn í kosningarnar. Þar fari þá fram keppni á milli manna alveg fram á kjördag fremur en keppni á milli stefnumála og stjórnmálaflokka. Ég held að þetta séu algerlega gild rök eða athugasemd eða álitamál, hvernig sem við viljum orða það, sem við þurfum líka að velta fyrir okkur. Hér tel ég t.d. að einhvers konar leiðbeinandi röðun af hálfu stjórnmálaflokka á listum mundi geta tekið á þessu. Hún getur líka hugsanlega tekið á vandanum varðandi fléttulistana en þá er það að mínu viti algert skilyrði að allar breytingar á slíkum leiðbeinandi röðuðum lista hafi miklu meira vægi en í núgildandi kosningakerfi.

Það hefur verið minnst á að það sé lögfræðilegt álitaefni hvort þurfi tvo þriðju meiri hluta Alþingis til að gera þær breytingar sem hér er fjallað um á lögunum þar sem verið er að tala um að það þurfi tvo þriðju meiri hluta til að gera breytingu á tilhögun á úthlutun þingsæta. Ég verð að segja alveg eins og er að ég get ekki alveg séð rökin fyrir því að þetta falli undir þá grein vegna þess að í gildandi kosningalögum er hægt að gera breytingu á tilhögun við úthlutun þingsæta. Það er hægt að gera breytingar og dæmi eru um það í sögunni að það hafa orðið breytingar, kjósendur hafa gert breytingar á úthlutun þingsæta með útstrikunum eða umröðunum og þess vegna finnst mér þetta ekki heyra undir þetta ákvæði sem hér er verið að vísa til um tvo þriðju meiri hluta Alþingis. Ég geri mér alveg grein fyrir því að menn hafa teflt fram ólíkum lögfræðilegum álitum í þessu efni en í mínum huga finnst mér að við séum ekki að gera þær breytingar hér sem eru í andstöðu við það sem er í gildandi kosningalögum hvað þetta áhrærir.

Þetta eru helstu álitamálin sem koma upp í huga minn við yfirferð á þessu máli og ég vísa til töluliðar í greinargerð með þessu frumvarpi, tölulið IV, þar er fjallað um fleiri leiðir en frumvarpið sjálft gerir ráð fyrir, sérfræðingahópurinn sem kom að samningu þessa frumvarps. Þar getur hann um eða útlistar fleiri leiðir en frumvarpið sjálft gerir ráð fyrir og þar á meðal er þessi leið sem er einhvers konar leiðbeinandi röðun á framboðslista, að flokkar geti fyrir fram haft forval eða prófkjör og raðað upp sínum listum, komið með það sem leiðbeinandi röðum og þá er ekki vandamálið hver á að vera talsmaður listans, eins og hv. þm. Geir Haarde gerði að sérstöku vandræðamáli í ræðu sinni áðan. Þá er hægt að taka tillit til sjónarmiða sem framboðsaðilar kunna að vilja hafa eins og um fléttulista milli kynja eða taka tillit til sjónarmiða innan stórra landsbyggðakjördæma um að hafa fulltrúa frá ólíkum svæðum o.s.frv. Mér finnst þó algert lykilatriði við slíka útfærslu að allar breytingar hafi verulegt vægi þannig að röðunin við þá útfærslu sem hér er fjallað um í greinargerð, þessi leiðbeinandi röðun hafi ekkert óskaplega mikið vægi í sjálfu sér, kannski þriðjung eða eitthvað þess háttar, hlutföllin 2:1 eru nefnd í greinargerðinni sem möguleg. Það má hugsanlega hugsa sér eitthvað annað í því efni, þannig að kjósandinn hafi verulega mikil áhrif á það hvernig listinn lítur endanlega út með því að númera á listann 1, 2, 3, 4 upp á nýtt. Þetta finnst mér vel fær leið og ég mundi alla vega vilja að allsherjarnefnd skoðaði hana sérstaklega, hugsanlega sem viðbótarleið inn í frumvarpið eins og það er lagt fram. Það er reyndar gerð grein fyrir því hér að þá værum við komin mjög nálægt danska kerfinu og mér finnst alveg mögulegt að skoða það, eða þá að þessi leið kæmi í stað annarrar þeirrar leiða sem gerð er grein fyrir í frumvarpinu eða jafnvel beggja ef menn vilja fara þá leið að það sé bara ein regla sem gildir fyrir alla sem mér finnst líka alveg koma til álita og mundi að mörgu leyti vera einfaldari í framkvæmd en að bjóða upp á ólíkar leiðir. Það er visst flækjustig í því gagnvart kjósendum, það er ekki hægt að neita því. En þetta eru samt sem áður leiðir sem eru þekktar annars staðar og því ættum við ekki að geta gert það eins og nágrannaþjóðirnar og ráðið við það. Ég hef ekki stórar áhyggjur af því.

Þetta eru svona helstu álitamálin, frú forseti, sem koma upp í hugann þegar ég fer yfir þetta mál. Mér finnst mikilvægt að við tökum þetta frumvarp til efnislegrar umfjöllunar bæði í þinginu og í nefnd. Mér finnst sjálfum mjög mikilvægt og spennandi að geta náð fram breytingum á kosningalögum sem auka möguleika kjósenda til að hafa áhrif á röð frambjóðenda eða hverjir ná kjöri af þeim listum sem viðkomandi kýs að kjósa en ég neita því ekki að það eru nokkur álitamál sem ég mundi vilja fara yfir betur og fá sérfræðinga á fund nefndarinnar til að velta upp ólíkum hliðum á þessum álitamálum. Ég vonast að sjálfsögðu til að þetta mál fái framgang fyrir kosningar og áður en þing lýkur störfum þannig að þær breytingar sem þingið kemur sér saman um að gera á kosningalögum taki gildi við þær kosningar sem nú fara í hönd.