136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[18:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir málefnalega ræðu þar sem hann kom víða við. Mér fannst flest í málflutningi hans gagnlegt og gott þó að ég sé ósammála þeirri niðurstöðu hans að rétt sé að ljúka þessum breytingum fyrir kosningarnar í vor.

Ég vil nefna nokkur atriði sem hann vék að í máli sínu. Í fyrsta lagi vil ég lýsa andstæðri skoðun við mat hans á því hvort tvo þriðju eða einfaldan meiri hluta þingmanna þyrfti til að koma breytingunum í gegn. Ég get komið nánar að því síðar í þessari umræðu en eftir lestur kosningalaga og stjórnarskrárákvæða er það mín niðurstaða að tveggja þriðju sé þörf í þessu tilviki. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefndi að fyrir liggja mismunandi álit færra lögfræðinga á þessu atriði og mikilvægt að að þessu verði hugað í nefndinni, eins og reyndar þeim fjölmörgu álitamálum sem hann gat um og ég get tekið undir. Ég held að bæta mætti við listann um álitamálin sem hv. þingmaður nefndi en þau eru vissulega fyrir hendi og krefjast þess að málið fái ítarlega umfjöllun í nefnd.

Ég vil undirstrika að öll þau álitamál sem eru uppi í þessu máli og eins þær mismunandi hugmyndir sem eru í gangi í þjóðfélaginu um útfærslu persónukjörs sýna okkur einfaldlega fram á að við erum ekki stödd á þeim tímapunkti, málið er ekki nægilega þroskað til að rétt sé að klára það fyrir kosningar í vor. (Forseti hringir.) Það er mín grundvallarafstaða í málinu.