136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:05]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða hér í dag breytingar á kosningalögum og málið er borið fram af þingflokksformönnum stjórnarflokkanna og Framsóknarflokks og Frjálslyndra. Ég verð að játa að mér finnst þetta virðingarleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart kosningaferlinu og kosningalöggjöfinni mjög undarlegt. Hér hlaupa menn til á síðustu stundu og ætla sér að henda í gegnum þingið með hraði breytingu á fyrirkomulagi kosninga eftir að boðað hefur verið til þeirra, þó að sú kynning hafi raunar enn sem komið er aðeins verið í fjölmiðlum. Ég hlýt að gera alvarlegar athugasemdir við svona verklag.

Hæstv. forseti. Það mátti heyra á máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar að þau eru sannarlega ekki sannfærð um efni málsins. (SF: Ég er flutningsmaður.) Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir tekur fram að hún sé flutningsmaður (Gripið fram í.) en það mátti líka heyra á máli hennar þar sem hún rakti mörg atriði sem hún hefur ekki sannfæringu fyrir í frumvarpinu. Því hlýt ég að spyrja: Hvers vegna leggja menn svona mikið á sig við að leggja hér fram með hraði þetta mál og ætlast til þess að lokið verði við breytingu á kosningalögum á þessum skamma tíma fyrir boðaðan kjördag?

Eins og mátti heyra á máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hefur hún allar þessar efasemdir og hún gaf sér það í rauninni að Sjálfstæðisflokkurinn mundi stoppa málið fyrir flutningsmenn þannig að þeir þyrftu ekki að standa við málið þegar upp yrði staðið. Hún taldi töluleg rök frá ekki ómerkari manni en fjármálaráðherra, held ég að hún hafi nefnt, um að þetta ætti að skoða og athuga en ekki væru nokkrar líkur á að þetta færi í gegn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að stoppa málið. Ég ætla ekki að fullyrða að við björgum hv. þingmanni þannig úr snörunni með þetta mál sem hún hefur enga sannfæringu fyrir.

Hæstv. forseti. Það er grundvallaratriði í lýðræðissamfélagi að stjórnvöld geti ekki breytt leikreglum eftir að blásið hefur verið til kosninga, að ríkjandi flokkur geti ekki boðað til kosninga einn daginn og síðan breytt þeim forsendum sem flokkum er ætlað að vinna eftir þann næsta. Það er grundvallaratriði sem við verðum að horfa til.

Forsætisráðherra hefur komið því á framfæri í gegnum fjölmiðla að hér verði kosið til þings 25. apríl. Út frá þeirri forsendu hafa flokkarnir gengið og eru nú í óðaönn við að skipa framboðslista sína og undirbúa kosningabaráttu miðað við gildandi kosningalöggjöf. Það ferli er langt komið víðast hvar og þá kemur ríkisstjórnin fram með mál sem setur þetta allt saman á annan endann. Það þýðir ekkert fyrir stjórnarliða að halda því fram að þessar tillögur breyti engu þar sem mönnum standi til boða tvær leiðir, annars vegar að stilla upp svokölluðum röðuðum lista og hins vegar því sem menn vilja kalla óraðaðan lista, það er um eðlisbreytingu á innihaldi kosningalaganna að ræða og það er verið að breyta fyrirkomulagi kosninganna eftir að fyrstu skrefin hafa verið tekin í átt til kosninga og þau skref stigin að boða til prófkjara og flokksfólk víða um land er auðvitað tilbúið með þá vinnu. Um það snýst þessi gagnrýni. Það er sama hvað menn reyna að snúa út úr því, þannig er þetta bara.

Það heyrist á göngum þingsins að sumir flokkar ætli sér að boða til prófkjörs og hafa nú þegar boðað til prófkjörs en ætla síðan að bjóða upp á óraðaða lista í kosningunum. Á hvaða leið eru menn þá með það fólk sem starfar í flokkunum, fólk sem leggur mikið á sig í þessari vinnu við prófkjörin og við uppröðun á listana, grasrótina í flokkunum? Hvað er verið að hrekja þetta fólk út í slíka vinnu?

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði fyrr í dag að öllum flokkum hefði verið boðið að gerast meðflutningsmenn að þessu frumvarpi. Það er í sjálfu sér alveg rétt hjá hv. þingmanni, hann kom að máli við mig hálftíma áður en frumvarpið var lagt fram á Alþingi og þá var mér boðið að setja nafn mitt við frumvarpið. Mér var sem sagt boðið að kvitta undir tilbúið frumvarp en ég mátti ekki hafa neinar skoðanir á því. Ég mátti ekki leggja fram einhverjar tillögur til breytingar á því. Mér var sem sagt ekki boðið að koma að undirbúningnum og hafði enga möguleika á því að hafa áhrif á efnistök þess, sem ég reikna með að flutningsmenn frumvarpsins hafi haft tök á, hafi lagt í þá vinnu sem tilheyrir því að flytja frumvarp á Alþingi. Það er sem sagt samráðið sem var haft um málið.

Hingað til hefur verið venjan að hafa samráð á milli flokkanna þegar kemur að því að breyta kosningalöggjöfinni. Það er nauðsynlegt, kosningalöggjöfin er þess eðlis að þar verður að hafa ríkt samráð. Flokkarnir verða að hafa samráð sín á milli og efna til ítarlegrar og vandaðrar umræðu um slík mál, ekki bara í þinginu heldur í samfélaginu öllu. Þessi umræða hefur ekki farið fram, samráðið er ekkert. Fólkið í landinu hefur ekki fengið að átta sig á efni þessa máls og það á að fara að kjósa eftir mánuð, eða rúmlega það.

Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð en það er reyndar í takt við svo margt annað sem þessi minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur staðið fyrir. Samráð við stjórnarandstöðuna um stærri mál þekkjast ekki í orðabókum þeirra. Hér þarf allt að gerast með miklu hraði og vönduð vinnubrögð eru aukaatriði, það höfum við orðið vör við á þeim dögum sem ríkisstjórnin hefur setið.

Forgangsröðunin hjá ríkisstjórninni er einkennileg. Ofurkapp hefur verið lagt á stjórnkerfisbreytingar en brýnustu verkefnin í samfélaginu mega sem sagt bíða. Ég spyr: Væri ekki nær að eyða dýrmætum tíma þingsins fram til kosninga í að ræða um og vinna að brýnum málum vegna stöðu heimila og fyrirtækja í landinu? Við hljótum að geta spurt þeirrar spurningar þegar margt brennur á hér í efnahagslífinu. Mega stjórnkerfisbreytingar ekki bíða fram yfir kosningar þannig að að þeim megi vinna með vönduðum hætti og sem víðtækastri sátt? Þetta eru grundvallarspurningar.

Hæstv. forseti. Nokkur praktísk atriði koma upp í hugann við lestur frumvarpsins umfram þessi atriði sem ég hef nú þegar nefnt og snerta slælegan undirbúning þess. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og Árni Þór Sigurðsson fóru yfir mörg þessara atriða og nefndu m.a. kynjahlutföllin og mörg önnur atriði sem þyrfti sérstaklega að skoða hvernig ætti að vinna að — og ég tek undir það. Þetta er eitt af því sem ég held að jafnréttissinnar í allsherjarnefnd hljóti að skoða mjög vandlega þegar farið verður yfir málið þar.

Fyrir það fyrsta tel ég það nokkrum vandkvæðum bundið að með því að bjóða fram óraðaðan lista sé enginn einn einstaklingur í fyrirsvari fyrir framboðið. Eða felst það ekki í því að stjórnmálaflokkarnir raði ekki sjálfir sínu fólki í þá röð sem flokksmenn vilja sjá þá, er það ekki spurningin? Ætla menn kannski að velja framboðinu oddvita sem kemur fram fyrir framboðið í fjölmiðlum og veita honum þannig ákveðið forskot á aðra félaga sína á listanum sem keppast um þingsætin? Þetta hýtur að vera grundvallarspurning. Sjálf hef ég tekið þátt í prófkjöri þar sem keppt var um forustusæti og ég átta mig ekki á því hvernig hefði átt að velja milli þeirra sem forustumann lista til að taka þátt í umræðum og slíku áður en hann hefur verið valinn.

Eins og ég skil málið gefst flokkunum samkvæmt frumvarpinu tækifæri til að velja á milli þess að bjóða fram lista eins og venjan hefur verið undanfarið — og það er að flokksstofnanir viðkomandi stjórnmálaflokks velji þá frambjóðendur sem flokksmenn vilja að séu í framboði í nafni flokksins — og þess að þeir senda frá sér nafnalista og velta því ferli yfir á kjósendur. Það liggur þá í hlutarins eðli að frambjóðendur þeirra samtaka sem bjóða fram óraðaðan lista verða að fá álíka rúman tíma til að kynna sig fyrir kjósendum, hvort sem það er á framboðsfundum eða í fjölmiðlum. Ég sé fyrir mér að í mínu kjördæmi þyrfti margt að breytast. Framboðsfundir mundu missa sjarmann enda gagnlegt fyrir kjósendur að geta mætt á fundi í heimabyggð sinni og hlustað á fulltrúa allra framboða flytja mál sitt og svara fyrirspurnum, það er það form sem við höfum haft. Slíkar samkomur yrðu nær óhugsandi ef þar ættu að mæta sex eða sjö sinnum, sem sagt listafjöldinn, 20 manns til að koma sér og sínum málefnum á framfæri. Hvernig á þetta að gerast?

Við vitum hvernig prófkjörsbaráttan er, við höfum dæmin allt í kringum okkur í dag. Hún er á margan hátt annars eðlis en við eigum að venjast úr kosningabaráttu vegna alþingiskosninga þar sem einstaklingar sameinast um tiltekin stefnumál sem eru lögð fram fyrir kjósendur. Þetta hlýtur allt að koma fram í kosningabaráttunni.

Þriðja atriðið sem snýr að praktískum þáttum er samspil þessa frumvarps og laganna sem samþykkt voru 2006 um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hvernig fara þessi lög saman, hvað á að gilda um hina óröðuðu lista? Þetta eru atriði sem ég vænti að menn muni skoða í nefnd.

Að síðustu má kannski til gamans huga að kosninganóttinni. Hún er löng en í því býr vissulega ákveðinn sjarmi. Við sem höfum farið í gegnum prófkjör þekkjum líka hversu flókin talningin er og hægfara. Talning atkvæða með hinu nýja fyrirkomulagi yrði álíka flókin og tímafrek og raunin er þegar prófkjör eru annars vegar þegar verið er að tala um óraðaðan lista. Hvernig ætla menn að snúa sér í því þegar búið er að telja atkvæði þeirra sem bjóða fram raðaða lista nokkru áður en talningu hinna óröðuðu lista yrði lokið? Ætla menn einungis að tilkynna um heildarúrslit eða hætta að tilkynna um stöðu talningar af og til allan tímann? Ætla þeir e.t.v. að halda því fyrirkomulagi áfram að birta þá heildarniðurstöðu eins framboðs tiltölulega snemma og láta hin óröðuðu framboð bíða þar til síðar? Hluti af miklum kosningaáhuga og kosningaþátttöku hér á landi er spennan sem ríkir í kringum kosningar og kosninganóttina ef svo má að orði komast.

Hæstv. forseti. Persónukjör er fallegt orð, það hljómar vel og rennur ljúflega ofan í marga. Tilfinningar flæða og lýðræðisástin fer að brenna í brjóstum margra við það eitt að heyra þetta orð. Þetta orð er þess eðlis að margir líta fram hjá þeim vandkvæðum sem felast í framkvæmdinni og skella skollaeyrum við þeim sjónarmiðum.

Ég hef rakið örfá atriði sem ég tel að gætu reynst erfið við framkvæmd kosninganna. Það eru mörg fleiri sem má hér nefna en þó skiptir mestu undirbúningur málsins og það verklag sem var viðhaft. Þetta mál held ég að ríkisstjórnin ætti að taka til baka og skoða betur. Það má geyma það fram yfir kosningar og þá er hægt að blása til samráðsvettvangs flokkanna og jafnvel fleiri aðila til að ræða málið og reyna að ná um það sátt. Það er eina færa leiðin þegar breyting á kosningafyrirkomulaginu er annars vegar. Við hlaupum ekki í gegnum svona grundvallarbreytingar á fyrirkomulaginu án vandaðrar umræðu og málsmeðferðar. (Forseti hringir.) Við erum hér að fjalla um lýðræðislegan grundvöll lýðveldisins og fyrir þeim grundvelli eigum við að bera virðingu, hæstv. forseti.