136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:21]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var svolítið sérstök ræða, verð ég að segja. Það var ekkert jákvætt við persónukjör. Það var bara allt neikvætt. Þetta var samfelld runa af neikvæðum sjónarmiðum gagnvart persónukjöri. Persónukjörið var hreinlega skotið í kaf í þessari ræðu.

Ég er svolítið hissa á því vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið flokka duglegastur við að vera með opið prófkjör. Þeir hafa sagt öllum að koma og veskú raða upp lista, allir eiga að koma og hafa áhrif á hann. Nú er verið að flytja persónukjörið inn í kjörklefann þannig að mér finnst engin rökvísi í þessu. Þessi ræða kom mér verulega á óvart. Hún var miklu neikvæðari gagnvart persónukjöri en ræða hv. þm. Geirs H. Haarde sem var talsmaður Sjálfstæðisflokksins hér áðan. Hann sá þó eitthvað jákvætt í þessu og vildi ræða málin.

Við framsóknarmenn sjáum mjög margt jákvætt við persónukjör og ég vil andmæla því — sem kom fram hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur — að ég hafi enga sannfæringu fyrir málinu og sé að vonast til þess að Sjálfstæðisflokkurinn reddi hinum flokkunum úr einhverri klípu eða eitthvað slíkt. Það er alls ekki þannig. Ég færði í ræðu minni rök fyrir persónukjöri og lýsti hér samþykkt Framsóknarflokksins, við viljum persónukjör.

Ég leyfði mér hins vegar að draga fram ýmsa galla á persónukjöri í heiðarlegri umræðu, mér finnst það bara eðlilegt. Nefndi t.d. að í Finnlandi hefði alls konar fólk sem er frægt í samfélaginu komist að, fólk sem hefði kannski ekki svo mikið að segja í stjórnmálum út af fyrir sig, mér finnst það galli. Ég vil mótmæla því að ég hafi ekki sannfæringu fyrir þessu máli, ég er einn af flutningsmönnum þess.