136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

kosningar til Alþingis.

368. mál
[19:29]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom m.a. fram að núverandi stjórnarflokkar hefðu ekkert samráð við stjórnarandstöðuna. Ég held að vert sé að rifja upp að um er að ræða minnihlutastjórn og hún kemur engu fram nema í samstarfi við stjórnarandstöðuna. Það liggur líka fyrir að af þremur flokkum í stjórnarandstöðu eru tveir á málinu. Mér finnst það ekki sæmandi stærsta stjórnarandstöðuflokknum að láta eins og hann sé fórnarlamb, eins og enginn hafi við hann talað og hann hafi ekkert af þessu máli heyrt.

Ég hef setið fundi þar sem formaður flokksins kom að umræðu um þetta mál. Ég talaði við hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um það hvort þau hefðu áhuga á að vera á málinu en svo var ekki. Ég virði þau sjónarmið en ég vil ekki hafa Sjálfstæðisflokkinn volandi hér í ræðustól eins og hann sé eitthvert fórnarlamb og enginn vilji við hann tala og ekkert sé við stjórnarandstöðuna talað. Við komum engu í gegn nema í samráði við stjórnarandstöðuna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta sé klárt í umræðunni.

Í annan stað vil ég líka taka undir með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem sagði að öll röksemdafærsla hv. þingmanns væri á þann veg að hún væri andvíg málinu. Mér finnst það allt í lagi. Þá eiga menn að standa í lappirnar og vera andvígir málinu og viðurkenna að þeir séu andvígir persónukjöri eða að minnsta kosti því máli sem hér liggur fyrir. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður bætti svo um betur í lokin þegar hún sagði að hún hefði miklar áhyggjur af kynjahlutfallinu. Það verða nú að teljast þó nokkur tíðindi að sjálfstæðismenn séu alveg ómögulegir yfir því að kynjahlutföllin skuli ekki vera rétt í þingflokkum.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að langt er seilst eftir rökum til þess að finna málinu eitthvað til foráttu. Það er ekki nógu gott í grundvallarmáli um að veita almenningi aukið vægi að einasta framlagið séu rök af þessu tagi eða yfirlýsingar um að vinnubrögðin séu ómöguleg. Það er ekki svo. Við höfum að vísu haft skamman tíma en (Forseti hringir.) vinnubrögðin hafa verið til fyrirmyndar.