136. löggjafarþing — 94. fundur,  4. mars 2009.

fundarstjórn.

[19:50]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég get ekki látið hjá líða að gera athugasemdir við fyrirkomulag þinghaldsins í kvöld. Forseti lýsti því í upphafi fundar í dag að gert yrði ráð fyrir því að kosningalöggjöfin yrði rædd á milli kl. sex og átta. Þingmenn sem höfðu hugsað sér að taka þátt í umræðunni voru komnir í hús til að undirbúa sig og fylgjast með þegar fundi var skyndilega frestað upp úr kl. hálfátta. Þá lá fyrir að hægt hefði verið að koma a.m.k. einni ræðu fyrir og ég t.d. beið eftir að komast að.

Tilgangur þessa útbýtingarfundar er að koma fram með frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem mér skilst að eigi væntanlega að koma á dagskrá á föstudaginn, en um það vitum við náttúrlega ekkert í stjórnarandstöðunni.

Ég hlýt að gera athugasemd við það við hæstv. forseta að maður sé ekki varaður við því að von sé á útbýtingarfundi þegar búið er að skipuleggja umræðuna með þeim hætti sem gert var. Ég hefði kosið að forseti hefði reynt að leita leiða til að gera þingmönnum það ljóst að ekki yrði haldið áfram með þessa umræðu til kl. átta.