136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

uppsagnir þyrluflugmanna Landhelgisgæslunnar.

[10:47]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegur forseti. Síst ætla ég að gera lítið úr áhyggjum hv. þingmanns um skerta starfsemi þyrlubjörgunarsveita. Landhelgisgæslunni er markaður ákveðinn rammi innan fjárlaga 2009 og ég tel að það sé ekki á valdi framkvæmdarvaldsins að breyta því. Hins vegar má hugsa fram í tímann og búa í haginn. Það má fara að mynda sér skoðanir á forgangsröðun í ríkisrekstri sem gæti þá komið til góða við undirbúning fjárlaga 2010 og hvað varðar Varnarmálastofnun tel ég að skoða verði það mál vel. Ég tel hins vegar ekki rétt þegar menn ganga að viðræðum um það hvort hægt sé að hagræða með sameiningu stofnana að gengið sé út frá því að stofnunin eigi að vera svona eða hinsegin, menn verða að skoða þá hagræðingarþætti og sjá hvort þeir skili raunverulega einhverju.