136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

opinber hlutafélög.

[10:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Með lögunum nr. 90/2006 var lögum um hlutafélög breytt og bætt inn hugtakinu opinbert hlutafélag, en þar segir svo, með leyfi herra forseta:

„Opinbert hlutafélag merkir í lögum þessum félag sem hið opinbera, einn eða fleiri hluthafar, á að öllu leyti, beint eða óbeint. Slíkum félögum einum er rétt og skylt að hafa orðin opinbert hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina ohf. og má tengja orðin eða skammstöfunina heiti eða skammstöfun á hlutafélagi.“

Síðan er talað um að það skuli vera jöfn kynjaskipting í stjórn, fjölmiðlar og kjörnir fulltrúar megi sækja aðalfundi o.s.frv.

Nú í kjölfar bankahrunsins hefur ríkið eignast fjöldann allan af fyrirtækjum, þar á meðal þrjá banka sem eru þá væntanlega ohf. Síðan eiga þau fyrirtæki aftur fyrirtæki, mér skilst að Árvakur hafi t.d. verið seldur þannig o.s.frv.

Ég ætla að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hafi kannað hvort öll þessi fyrirtæki séu ekki ohf. samkvæmt þessari skilgreiningu því að hún er mjög afdráttarlaus. Á þá ekki að boða kjörna fulltrúa á aðalfundi sem taka ákvarðanir um stjórn t.d. og á þá ekki að vera jafnræði í kynjum í stjórnum þannig að ekki megi vera fimm konur í stjórn Kaupþings ef það er opinbert hlutafélag eða of margar karlar í stjórnum hinna bankanna? Hefur hann farið að þessum lögum? Að sjálfsögðu ber framkvæmdarvaldinu að fara að lögum.

Svo er það líka með mörg önnur fyrirtæki, það væri gaman að fá einhvern tímann lista yfir öll þau fyrirtæki sem ríkið hefur eignast að undanförnu í gegnum þessa banka sína. (Gripið fram í.)