136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

opinber hlutafélög.

[10:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður er áhugamaður um eignarhald ríkisins á bönkum og fyrirtækjum. Reyndar er þetta mjög þörf ábending eða góð spurning hjá hv. þingmanni. Það þarf að greina það og ákveða með hvaða hætti eignarhaldinu verði fyrir komið að þessu leyti, þar á meðal hvort þessi tiltölulega fátæklegu ákvæði sem eru í lögum um opinber hlutafélög eru fullnægjandi. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að þau séu það ekki, það eigi að leggja ýmsar ríkari skyldur á þau fyrirtæki sem eru opinber hlutafélög og tengjast m.a. þeim þáttum sem nefndir voru eins og aðgengi að upplýsingum um starfsemi þeirra, hvernig stjórn þeirra er skipuð, aðgangi fjölmiðla o.fl. í þeim dúr.

Ég held að það sé hins vegar ekki meiningin og væntanlega alls ekki ætlun laga að fyrirtæki sem tímabundið lenda í einhvers konar umsjá banka, í gjörgæslu hans eða umsjá, annaðhvort í þeim skilningi að bankinn er að greiða úr þeirra málum eða að bankinn hefur fært þau til eignaumsýslufélags, verði opinber hlutafélög meðan á því stendur. Það held ég að væri ekki skynsamlegt ráðslag ef meiningin er að það ástand sé eingöngu tímabundið og ætlunin sé að endurskipuleggja þau fyrirtæki og koma þeim aftur út í lífið ef svo má að orði komast.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er hins vegar hlutur sem þarf að vera skýr og ég skal taka það til skoðunar, og þakka ábendinguna, að skýra aðeins leikreglurnar í þessum efnum.