136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

störf sérstaks saksóknara.

[10:57]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Ég skal reyna að svara um starfsemi hins sérstaka saksóknara eftir því sem mér er unnt. Hvað varðar frystingu eigna auðmanna hefur saksóknarinn sem og lögregla mjög víðtækar heimildir til haldlagningar og þarf ekki dómsúrskurð til. Hins vegar er það þannig að til þess að geta lagt hald á muni eða eignir þarf rannsóknin að vera í gangi og upplýsingar þurfa að vera komnar sem veita vísbendingar um refsiverða háttsemi. Eins og ég hef sagt áður eru þetta flókin mál og mörg gögn sem þarf að skoða og til að greiða fyrir upplýsingaöflun saksóknarans hef ég í hyggju að flytja hér mál fyrir Alþingi sem veitir saksóknaranum ótvíræðar heimildir til að afla gagna til þess einmitt að flýta fyrir rannsókninni sem gæti þá leitt til þess að hann þyrfti að grípa til úrræða eins og haldlagningar.

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og ég held að það sé mjög mikilvægt að eftirlitsstofnanir vinni saman, að bæði stjórnsýslustofnanir og löggæslustofnanir vinni saman að þessum málum og vinni saman að því að greina hvað það er sem þarf að fara í hvaða farveg.

Ég get ekki svarað til um bein samskipti milli rannsóknarnefndar þingsins og hins sérstaka saksóknara en ég ætla að ef rannsóknarnefnd þingsins kemst að refsiverðri háttsemi við rannsókn sína beini hún þá gögnum til hins sérstaka saksóknara.