136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

staða sjávarútvegsfyrirtækja.

[10:59]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég er með óundirbúna fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um skuldastöðu sjávarútvegsins, áætlaðar tekjur hans á þessu ári og framlegð í íslenskum sjávarútvegi. Ég hef leitast við að fá svör við þessum spurningum alveg frá því að bankarnir fóru á hausinn í haust og ekki fengið nægilega skýr svör að mínu mati. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðina og þingheim allan að fá að vita hver staðan er, sérstaklega fyrir efnahags- og skattanefnd. Í síðustu viku spurði ég Mats Josefsson, sænskan ráðgjafa sem mun aðstoða við að færa skuldir og eignir úr gömlu bönkunum yfir í nýju bankana, um skuldir sjávarútvegsins. Hann hafði ekki hugmynd um hverjar þær væru. Hann hafði heldur ekki hugmynd um hvaða veð væru á bak við þær skuldir sem flytja átti milli bankanna. Ég tel nauðsynlegt að við vitum það, það sé öllum ljóst og sérstaklega þingmönnum og ráðherrum. Ég spyr þess vegna hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem er líka fjármálaráðherra og ætti þess vegna að vita betur en aðrir hvað skuldirnar eru miklar, hvað framlegðin er mikil í íslenskum sjávarútvegi nú sem stendur og hverjar eru áætlaðar tekjur af sjávarafurðum á þessu ári.