136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

staða sjávarútvegsfyrirtækja.

[11:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þetta er fyrirspurn sem erfitt er að svara óundirbúið nema að hafa einhver gögn við höndina og maður verður þá að treysta á minni sitt. En ég get því miður frætt hv. þingmann um að skuldir sjávarútvegsins eru miklar, þær eru allt of miklar. Hann er skuldum hlaðinn. Sú staða versnaði stórkostlega þegar gengi krónunnar hrundi á síðasta ári. Hvort við eigum að giska á að árstekjurnar séu þrefaldar til fjórfaldar, veit ég ekki, en þær eru einhvers staðar nálægt því bili. En vissulega hafa þær lækkað frá áramótum um upp undir 15% ef við reiknum með að þær séu að uppistöðu til í erlendri mynt, sem ég held að sé raunin, fyrir utan einhverja innlenda reikninga sem vega ættu þungt í fjármögnun fyrirtækjanna. Sú gengisþróun er að sjálfsögðu jákvæð fyrir efnahagsreikninginn og skuldahliðina en hún er þó að sama skapi neikvæð fyrir tekjuhliðina, þ.e. færri krónur koma inn fyrir útflutninginn. Annað og verra er þó það að fallandi afurðaverð og birgðasöfnun hafa auðvitað verulega neikvæð áhrif á afkomu greinarinnar núna.

Það er fleira sem gerir þessa mynd óljósa. Sjávarútvegurinn á nokkra tugi milljarða í óuppgerðum gjaldeyrisvarnasamningum í bankakerfinu. Þeirri óvissu er haldið utan sviga í bili — eða innan sviga — og fyrirtækin hafa bent á hversu bagalegt það er fyrir þau að fá ekki niðurstöðu í það mál. Ég hef í höndum skýrslu frá endurskoðunarfyrirtæki sem Samtök sjávarútvegsins létu gera um afkomu stórra fyrirtækja innan greinarinnar. Hún er alvarleg og var þó gert ráð fyrir því þar að gjaldeyrisvarnasamningarnir leystust á tiltekinn hátt. Nú er það mál enn í biðstöðu eða óútkljáð þannig að óvissan um þá hluti, eða nákvæmlega þær tölur sem hv. þingmaður spyr um, er mjög mikil. (Forseti hringir.) En ég skal reyna að taka saman gleggri tölur um þetta og hafa þær til svara á Alþingi sem fyrst.