136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

óundirbúnar fyrirspurnir á dagskrá.

[11:06]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú ætla ég einmitt að ræða um fundarstjórn forseta. Ég hugðist spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um fisksölu í Bretlandi og víðar í ljósi þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið í hvalveiðamálinu. Þetta er í þriðja sinn sem ég legg fram þessa fyrirspurn, sendi hana af stað, og ég hygg að það hafi gerst bæði seint og snemma á þeim tíma sem til þess er. Mér þykir satt að segja svolítið undarlegt að þessi fyrirspurn skuli ekki komast að og tel að forseti ætti kannski að skoða það. Það getur vel verið að það sé misskilningur og gott að fá á því skýringar.

Getur það verið að aumir varaþingmenn skuli víkja fyrir virðulegum hv. öðrum þingmönnum í þessari fyrirspurnaröð eða er sjávarútvegsráðherrann eitthvað ómerkari en aðrir ráðherrar? Það er varla svo því að hér svaraði hann fyrirspurn um ágæt sjávarútvegsmál enda eru þau tengd þeirri fyrirspurn sem ég var með. Eða er það þannig að málefnið sjálft, vandi sjávarútvegsins og fisksölunnar í ljósi þeirra ákvarðana sem teknar voru, sé ekki til umræðu á þingi?