136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

óundirbúnar fyrirspurnir á dagskrá.

[11:08]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér voru óundirbúnar fyrirspurnir á dagskrá en ekki störf þingsins, þannig að það sé á hreinu. Ég er ósköp einfaldlega að leita skýringar á því hvers vegna þessi fyrirspurn mín um málefni sem ég tel brýnt, og ég held að allir hljóti að viðurkenna að þarf að svara og ræða, kemst ekki á dagskrá. Það kunna að vera einhverjar skýringar á því. Ég er ósköp einfaldlega að leita að þeim. Sjálfur nefni ég þrjár skýringar. Forseti hefur ekki svarað neinni þeirra og vil ég gjarnan að hann geri það.

Það kann að virðast fáfengilegt að kvarta yfir því að maður komist ekki upp í stólinn og sjálfsagt er það það þegar litið er yfir aldirnar. En í fréttum hefur verið rætt um vandræði fisksölunnar vegna ákvörðunar Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um upphaf hvalveiða, og ýmis annar vandi sem við er að glíma og er ekki á bætandi við þá erfiðleika sem hér eru uppi. Mér finnst algerlega eðlilegt að þingmaður, jafnvel þó að hann sé úr Samfylkingunni (Forseti hringir.) og jafnvel forseti þó að hann styðji ríkisstjórn hæstv. sjávarútvegsráðherra, fái að spyrja sjávarútvegsráðherra um þetta.