136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:13]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Mig langar til að fá upplýsingar um það hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni hvort ekki hafi komið til umræðu í nefndinni um málið þau sjónarmið sem ég m.a. hef haft uppi um að kjararáði verði falið að ákvarða um lífeyrisréttindi þeirra hópa sem lögin taka til. Ég hef sagt að mér finnst óeðlilegt að þingmenn hlutist sjálfir til um kjör sín. Kjararáði er fengið það verkefni að ákvarða þingfararkaup okkar og laun þeirra hópa sem undir lögin falla. Ég hefði talið eðlilegt að kjararáði væri einnig falið að ákvarða lífeyrisréttindi okkar vegna þess að það eru kjör alveg eins og þingfararkaup. Með því fyrirkomulagi lít ég þannig á að þingmenn væru lausir við að þrefa um eigin kjör í þingsal.

Ég kom hingað upp til að fá upplýsingar um hvort þetta sjónarmið hafi verið rætt í nefndinni þar sem mér finnst það vera mikilvægt. Ég tel að allar ákvarðanir um kjör þingmanna, hæstaréttardómara og annarra þeirra sem undir lögin falla, eigi að vera ákvörðun annarra en þingsins sjálfs.

Ég vildi varpa þessari spurningu fram og fá upplýsingar frá hv. þingmanni um hvort þessi sjónarmið hefðu verið rædd í nefndinni.