136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:33]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég lagði einmitt áherslu á að mín skoðun væri sú að landsmenn allir ættu að búa við hliðstæð lífeyrissjóðsréttindi og það ætti að stefna að því að sameina lífeyrissjóðina, að þetta væru ein réttindi. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er öflugur og góður lífeyrissjóður, ég vildi að allir hefðu hliðstæð réttindi og hann hefur.

Lífeyrissjóðirnir hafa ýmsir orðið sem hluti af kjarasamningum og í samningum atvinnulífs og stéttarfélaga eins og hv. þingmaður þekkir í gegnum tíðina. Grunnhugsjónin er sú að allir skuli hafa sömu lífeyrisréttindi og lífeyrissjóðsréttindi þegar starfsdegi hallar eða lýkur, það tel ég markmið sem eigi að stefna að.