136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

313. mál
[11:35]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er dapurlegt að heyra í hv. þm. Pétri Blöndal sem er búinn að styðja ríkisstjórnarflokka sem hefði verið í lófa lagið að koma á jafnrétti hvað varðar lífeyrissjóðina í landinu og lífeyrisréttindi fólks og lyfta þeim upp tilsvarandi því sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur ef þeir hefðu lagt þessa stefnu fram.

Hv. þingmaður, þetta eru fulltrúar einkavæðingarinnar, þetta eru fulltrúar þess að hver er sjálfum sér næstur o.s.frv. og þess vegna var þetta ekki forgangsverkefni hjá fyrrverandi ríkisstjórn. Nei, í þeirra huga var hver sinnar gæfu smiður í þessum efnum. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að hér eigi að ríkja sem mestur jöfnuður og jafnrétti og líka hvað varðar lífeyri og lífeyrisréttindi fólks. Það er hugsjón sem á að stefna að. Það gerum við í áföngum og þá á að færa lífeyrisréttindin upp fyrir almenning í landinu en ekki keyra þau niður eins og mér virtist hv. þm. Pétur Blöndal vera að leggja til.

Það er fagnaðarefni að sérréttindi forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara séu núna afnumin og að þeir gangi að almennum réttindum lífeyrissjóðsþega í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég tel það mikið fagnaðarefni og ítreka það, herra forseti. Það er ánægjulegt að þetta mál skuli vera komið á lokastig í afgreiðslu þingsins.