136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[11:53]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir andsvar hennar og lýsi því að ég er algerlega sammála því sem fram kemur í máli hennar. Það er einmitt ástæðan fyrir því að nefndin tók á þessu máli eins og hún gerir í breytingartillögum sínum, að taka með þjónustu þessara aðila.

Varðandi þá spurningu sem hún beinir til mín, hvort þessir aðilar hafi verið með hugmyndir um fleira, get ég aðeins vísað til þess sem kemur fram í sameiginlegri umsögn Arkitektafélags Íslands, Félags ráðgjafarverkfræðinga, Félags sjálfstætt starfandi arkitekta, Verkfræðingafélags Íslands, Stéttarfélags verkfræðinga og Tæknifræðingafélags Íslands þar sem þau fjalla fyrst og fremst um þetta mál.

Þau segja m.a. í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Með vísan til allra þeirra sömu raka og liggja til grundvallar frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar er farið fram á að breytingarnar verði einnig látnar ná til virðisaukaskatts af vinnu arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga við hönnun íbúðarhúsnæðis og eftirlits með byggingarframkvæmdum einstaklinga.“

Síðan færa þeir viðbótarröksemdir fyrir þessu. Í umsögn þeirra er ekki vikið að öðrum þáttum en þessum sérstaklega. En það kann vel að vera að það séu fleiri aðgerðir sem hægt er að grípa til til þess að auka virkni á starfssviði þessara aðila. Það má segja að opinberar framkvæmdir séu til þess fallnar almennt séð, hvort sem það fellur undir þessi lög eða aðrar framkvæmdir, að skapa störf í þessum greinum. Ég tel því að með því að opinberir aðilar haldi uppi (Forseti hringir.) framkvæmdastigi í landinu ætti að vera þokkalega séð fyrir möguleikum þessara stétta.