136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:15]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stundum eru andsvör frekar jákvæð hvatning og ég tel að umrætt andsvar hv. þm. Kjartans Ólafssonar hafi í sjálfu sér verið jákvæð hvatning til nefndarinnar á milli 2. og 3. umræðu. Ég mun fúslega taka andsvarið og ræða það í nefndinni því að hv. þm. Kjartan Ólafsson hitti naglann réttilega á höfuðið — og það á nú vel við að segja það í þessari umræðu — einmitt vegna þessarar umræðu um mismunun. Ef arkitekt, verkfræðingur, tæknifræðingur eða byggingarfræðingur sem búa í Danmörku eru ráðnir til hönnunar fæst virðisaukinn af því ekki endurgreiddur, út af því að virðisaukaflæðið færist ekki í reikningsskilum þar.

Á sama hátt er önnur spurning um mismunun. Ef stór hluti af manntímum eru ekki unnir á staðnum heldur á verkstæði í næstu götu fengist sá virðisauka ekki til baka, en ef verkstæðið væri flutt inn á byggingarstaðinn, eins og gert er í stórum framkvæmdum þar sem verkstæðin eru jafnvel sett upp á byggingarstöðunum, fengist hann endurgreiddur. Við þekkjum það frá virkjanaframkvæmdum og öðrum stórum framkvæmdum þar sem verkstæðin og allt í kringum þau er sett upp.

Ég tel einsýnt að við þurfum að skoða þetta á milli 2. og 3. umræðu og velta því fyrir okkur: Eigum við að stíga skrefið til fulls? Truflar samkeppnislöggjöfin okkur eitthvað? Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Kjartan Ólafsson kom að, við tölum um að geta hugsanlega örvað innlenda framleiðslu, hvort sem er glerverksmiðjur, gluggaverksmiðjur eða annað slíkt, og á móti njóta þeir, sem hafa verið stórvirkir í innflutningi, (Forseti hringir.) þess í formi (Forseti hringir.) festinga, þéttingarefnis og annars.