136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:17]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Ég vil þakka fyrir svarið sem ég fékk hjá hv. þingmanni en legg enn frekar áherslu á, þar sem þetta á eftir að fara aftur inn í nefnd, að það sem verið er að gera með þessari breytingu á virðisaukaskattslögunum, er að örva framkvæmdir og reyna að fá fólk til að halda eignum sínum við. Augljóst er að þannig er ástatt í landinu að vöntun hefur verið á iðnaðarmönnum til slíkra verka. Þeir hafa hreinlega verið svo uppteknir í nýframkvæmdum og margir hafa ekki fengið iðnaðarmenn í smáverk.

Þess vegna er svo mikilvægt, og ég legg áherslu á það aftur, að þessi breyting verði þannig að hagkvæmni náist. Hætt er við því að ef við skyldum þá sem eiga að fá endurgreiðslu til að vera á byggingarstaðnum getum við aukið kostnað framkvæmdaraðila og náum ekki fram hagkvæmni vegna þess að auðvitað er verksmiðjuvinnan hagkvæmnisþáttur og hárrétt, eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson nefndi hér áðan, að í mjög stórum nýframkvæmdum eru verkstæði hreinlega flutt á byggingarstaði. Í viðhaldsverkefnum er verkstæðið kannski í lítilli sendibifreið eða einhverju slíku, en ef um langar vegalengdir er að ræða og langt að fara til að ná í efni — það þarf ekki að vanta nema litla hluti — kostar það mjög mikið. Við megum ekki framkalla hærri kostnað við framkvæmdirnar vegna þess að endurgreiðslan á sér einvörðungu stað vegna þess sem unnið er á byggingarstað en ekki einhvers staðar annars staðar.

Við getum tekið dæmi úti á landi þar sem iðnaðarmaður þarf kannski að keyra 50–70 kílómetra frá starfsstöð sinni á byggingarstaðinn. Ef einhverja veigamikla hluti vantar er kostnaðurinn orðinn mjög mikill.