136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:24]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það er gott að hér er afar sterk samstaða og góður hljómgrunnur fyrir þetta frumvarp um breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem hefur verið mælt fyrir til 2. umr. Þetta er eitt þeirra mála sem núverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, ákvað þegar í upphafi að leggja áherslu á, þ.e. að finna leiðir til að örva atvinnu í landinu með lágmarksfórnum af hálfu ríkisins, eins og í þessu tilviki að slá af endurgreiðslukröfum á virðisaukaskatti.

Við vitum að viðhald og endurbætur á húsnæði vítt og breitt um landið eru verkefni sem eru jú stöðug og alltaf koma fram ný verkefni á þeim sviðum, sem eru jafnframt vinnukrefjandi og geta þannig haft áhrif. Það sem verið er að gera hér, að heimila 100% endurgreiðslu á virðisaukaskatti tímabundið vegna vinnu á byggingarstað, er hvatning og örvun inn í atvinnulífið í þessum greinum. Þetta er að sjálfsögðu tímabundin aðgerð og gert ráð fyrir að hún standi til 1. janúar árið 2011, að mig minnir, og verður þá hægt að endurskoða hana.

Það er líka mjög gott — og ég vil leggja áherslu á að þarna er verið að bæta inn í núgildandi lög — að þetta nái einnig til framleiddra húseininga, sem eru þá byggðar á verkstæði að hluta til og grunnur og annað reist á byggingarstað. Uppi hefur verið lagalegur ágreiningur eða túlkunarlegur ágreiningur á rétti til endurgreiðslu á virðisaukaskatti samkvæmt núgildandi lögum hvað þetta varðar. Ég minnist máls hjá Loftorku í Borgarnesi sem kom til okkar þingmanna Norðvesturkjördæmisins og þar var bent á að ákveðnir þættir í íbúðarhús væru smíðaðir í Borgarnesi en síðan fluttir á staðinn og húsin reist og unnin. Túlkunarágreiningur var uppi um rétt á endurgreiðslu á virðisaukaskatti af þessum einingum. Með þessu frumvarpi er allur vafi af tekinn og þeir eiga rétt á því.

Það sem ég staldra við eru húseiningar og húshlutar sem eru byggð í verksmiðjum eða á stað og síðan flutt á byggingarstað — hvort þetta nái einnig til innfluttra verksmiðjuhúsa. Að mínu mati eiga þessar tímabundnu aðgerðir fyrst og fremst að ná til innlendrar framleiðslu, innlendrar vinnu, í innlendum verksmiðjum, á innlendum vinnustöðum, á innlendum byggingarstöðum. Vel má vera að einhver af þessum þáttum stangist á við einhverja samninga sem við höfum gert við Evrópska efnahagssvæðið hvað varðar samkeppnismál, en nú eru mér slíkir samningar ekkert sérstaklega heilagir. Þegar hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru í húfi eiga vitlausir samningar að víkja. Engu að síður geta samningar verið samningar.

Vegna þess að þetta eru tímabundnar aðgerðir en ekki varanlegar, ekki ótímasettar aðgerðir heldur tímabundnar og út af því að við erum í þeirri erfiðu stöðu að berjast fyrir hverju starfi og halda hverri krónu innan lands, við erum að berjast fyrir því að draga úr innflutningi, draga úr því að þurfa að eyða gjaldeyri í að kaupa inn í landið. Við erum að berjast fyrir aukinni verðmætasköpun og virðisauka innan lands, á innlendri vinnu. (Gripið fram í.) Þess vegna, í þessum tímabundnu aðgerðum eigum við fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni Íslands og þeirra sem þar búa og vinna.

Þess vegna vil ég leggja það, sem fram hefur komið í máli annarra hér á undan, inn í nefndina að kanna samkeppnisstöðuna og hvort ekki sé hægt að binda þetta við framleiðslu á verkstæði, alveg eins og talað var um glugga hér áðan.

Fleiri verksmiðjur hafa farið úr landi vegna þess að þær höfðu ekki samkeppnisstöðu, við berjumst líka fyrir því að halda innlendri sementsframleiðslu í landinu. Í erfiðri stöðu megum við ekki láta einhver fáránleg samkeppnissjónarmið verða til þess að iðngreinar og atvinnugreinar hér lúti í gras. Betra er að hafa innlenda einokun en erlenda á krepputímum. Ef um það er að velja vil ég heldur að íslensk framleiðsla njóti.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta en vil ítreka þessi atriði, sem varða innlenda framleiðslu, innlenda verksmiðjuframleiðslu gegn erlendri, sem getur verið flutt inn. Mér finnst að við þurfum að fá þetta skýrt á milli 2. og 3. umr. Markmið frumvarpsins er að styðja við, efla og hvetja til innlendrar atvinnu og innlendrar verðmætasköpunar. Þetta eru tímabundnar aðgerðir sem eiga að ná árangri og við ætlum að ná árangri.

Þetta skulu vera mín orð. Þetta er virkilega gott mál við þær aðstæður sem við búum nú við og er örvun og hvatning og getur líka verið fjárhagslegur stuðningur fyrir fólk og sveitarfélög og aðra sem hafa næg verkefni fram undan hvað varðar viðhald, byggingar og mannvirki eins og þarna er talið upp, og geta þar með skaffað atvinnu og góðan virðisauka. Þetta er gott mál, herra forseti.