136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

virðisaukaskattur.

289. mál
[12:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. síðasta ræðumanni að það er mjög mikilvægt að skapa störf í landinu eins og hægt er til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem stuðla að því. Það mætti líka byggja fleiri álver, það mætti líka skjóta fleiri hvali o.s.frv. þannig að það er ýmislegt hægt að gera. (Gripið fram í.)

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd lögðum okkur í líma við að flýta afgreiðslu þessa máls og einnig að víkka það út eins og hægt var vegna þess að menn standa frammi fyrir því að starfsemi er mjög lítil og það er þá spurning um að gera eitthvað úr engu. Þess vegna fallast menn á svona undantekningar.

Ég vil byrja á því að segja að það er alls ekki algott því að svona undantekningar eru alltaf slæmar. Það er mikið betra að hafa algilda skatta án undantekninga vegna þess að menn lenda annars alltaf í jaðartilfellum. Menn lenda alltaf í því að skilgreina hluti eins og: Hvað er vinnustaður? Hvað er vinna á vinnustað? Hvað með vinnu sem ekki er unnin á vinnustað? eins og nefnt hefur verið í umræðunni. Þetta frumvarp á eftir að búa til mikið fleiri jaðartilfelli og það verða enn þá fleiri vandamál að glíma við. Hvaða stéttir er átt við? Þarna er talað um verkfræðinga, arkitekta og tæknifræðinga. Mega þeir vera útlendir? Má þjónustan koma frá útlöndum, t.d. frá Póllandi í fjarvinnslu o.s.frv.? Með svona undantekningum búa menn til jaðartilfelli og deilur um hvað fellur undir lögin og hvað ekki. Ég vildi bara benda á þetta. En ég tel samt að það sé mjög mikilvægt núna að gera þessar ráðstafanir einmitt til þess að mæta þeim mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Það er mjög ánægjulegt að fulltrúar vinstri flokkanna í efnahags- og skattanefnd átta sig á gildi Laffer-kúrfunnar sem segir að þegar skattar eru lækkaðir vex skattstofninn þannig að jafnvel heildartekjur ríkisins af dæminu geta vaxið þó að prósentan sé lækkuð vegna annarra skatta og jaðartilfella. Það er einmitt sú hugsun sem er á bak við hana. Með því að lækka skatta með þessum hætti — sem ég hlýt að gleðjast yfir því ég er skattalækkunarsinni, þó að það sé ekki gert með svona undantekningum — hef ég þá trú að þetta muni auka veltuna í þjóðfélaginu og setja virkni í gang sem ekki er til staðar. Ég hvet almenning til að reyna að átta sig á því að nú er virðisaukaskattur af þessari þjónustu horfinn og menn geta farið í endurbyggingu á húsnæði sínu eða í viðhald sem hefur legið í láginni í þenslunni þegar var erfitt að fá iðnaðarmenn og kannski allt of dýrt. Nú geta menn farið að skoða það allt saman. Ég legg til að menn kíki á það hvort ekki þurfi að gera við þak eða glugga eða eitthvað svoleiðis og noti sér þetta tímabil sem er undantekningartímabil út árið 2010, eftir umfjöllun í nefndinni, til að fara í endurbætur og viðhald.

Ég ætla ekki að tefja málið mikið meira. Ég ætla ekki að tala í 17 mínútur eins og hv. þm. Gunnar Svavarsson. Ég ætla að stuðla að því að þetta frumvarp geti orðið sem fyrst að lögum og nýst atvinnulífinu og þess vegna stoppa ég hér.